Körfubolti

Hann var ekki að „fíla“ sig á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mychal Green.
Mychal Green. Mynd/NordicPhotos/Getty
Mychal Green hefur spilað sinn síðasta leik í Dominos-deildinni í körfubolta því bandaríski leikmaður Skallagríms er farinn heim. Pálmi Þór Sævarsson, þjálfari Skallagríms taldi það best fyrir alla að enda samstarfið enda var kappinn óánægður á Íslandi.

„Þetta var samkomulag á milli okkar tveggja. Hann var ekki að „fíla“ sig á Íslandi, hvorki persónulega eða þá körfuboltann. Það var farið að bitna á liðinu og við komumst að sameiginlegri niðurstöðu að það væri best fyrir alla aðila að enda þetta," sagði Pálmi Þór Sævarsson, þjálfari Skallagríms um brotthvarf Green.

En hvað með eftirmann Green? „Við erum vonandi að ná að ganga frá því í dag. Hann verður ekki með á móti Njarðvík og ég efast um að hann verði kominn fyrir Keflavíkurleikinn," segir Pálmi sem er að lenda í þessu annað árið í röð.

„Þetta fylgir mér virðist vera," sagði Pálmi í léttum tón og bætir svo við:  „Við verðum bara að taka á þessu," sagði Pálmi.

Mychal Green skoraði 25,7 stig í fyrstu þremur deildarleikjunum en var síðan aðeins með 7 stig á 33 mínútum í tapi á móti Kanalausu Stjörnuliði.

„Hann byrjaði að spila ágætlega en svo var allt farið að fara í taugarnar á honum. Honum fannst boltinn á Íslandi vera of harður og eitthvað svoleiðis. Bara væl,“ sagði Pálmi.

Mychal Green er þegar búinn að finna sér lið í Lúxemborg og var því ekki lengi atvinnulaus.  „Hann fer aftur í sama lið og hann var í fyrra. Það var heppilegt fyrir okkur því við losnum við hann og hans skuldbindingar," sagði Pálmi.

Pálmi viðurkennir að mikill tími hafi farið síðustu daga í að finna nýjan bandarískan leikmann.

„Ég er búinn að sofa lítið. Þetta er samt að hafast og með heppni gætum við verðið komnir með mann fyrir Keflavíkurleikinn en ég efast reyndar um það," sagði Pálmi.

Skallagrímur verður án Bandaríkjamanns á móti Njarðvík í kvöld en það eru síðan sex dagar í heimaleik á móti Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×