Handbolti

Stefán Rafn áfram hjá Ljónunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stefán Rafn Sigurmannsson hefur framlengt samning sinn við þýska úrvalsdeildarfélagið Rhein-Neckar Löwen til loka næsta tímabils.

Steefán Rafn kom til Löwen í desember í fyrra til að fylla í skarð Uwe Gensheimer sem var þá nýbúinn að slíta hásin.

„Þegar eitthvað gengur vel á maður ekkert að vera að breyta til,“ sagði Stefán Rafn í viðtali á heimasíðu Löwen.

„Hér líður mér afskaplega vel og er ánægður. Ég vil bera mig saman við þá bestu í þessari deild, taka næsta skref og halda áfram að bæta mig.“

Thorsten Storm, framkvæmdarstjóri Löwen, lofaði framlag Stefáns Rafns. „Það var mikill happafengur að fá Stefán Rafn. Hann er afar hæfileikaríkur, leggur sig ávallt allan fram og hefur jákvæð áhrif á leikmannahópinn.“

„Það er auðvitað ekki auðvelt fyrir hann að vera vinstri hornamaður númer tvö á eftir Uwe en „Steppi“ hefur það sem þarf til að gerast byrjunarliðsmaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×