Handbolti

Risaleikur Arons og Lexa í sigri Ljónanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alexander Petersson fór á kostum í Kiel í kvöld.
Alexander Petersson fór á kostum í Kiel í kvöld. Mynd/Heimasíða RNL
Rhein-Neckar Löwen gerði sér lítið fyrir og sló bikarmeistara Kiel út úr þýska bikarnum í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 32-30 lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar í vil.

Alexander Petersson og Aron Pálmarsson fóru fyrir sínum liðum í Íslendingaslagnum í kvöld. Kapparnir skoruðu átta mörk hvor og voru markahæstir í sínum liðum. Alfreð Gíslason þjálfar sem kunnugt er lið Kiel en liðið átti bikarmeistaratitil að verja.

Uwe Gensheimer skoraði sex mörk fyrir Ljónin en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað hjá Ljónunum. Ítarlega var rætt við Stefán Rafn í Fréttablaðinu í dag en kappinn samdi nýlega við Ljónin til ársins 2015.

Guðjón Valur Sigurðsson var ekki á meðal markaskorara hjá Kiel í kvöld.

Ólafur Gústafsson og félagar í Flensburg unnu eins marks sigur 27-26 á B-deildarliði EHV Aue í kvöld. Árni Þór Sigtryggsson skoraði eitt mark fyrir Aue og Sveinbjörg Pétursson stóð vaktina í markinu. Rúnar Sigtryggsson þjálfar lið Aue.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlín unnu þægilegan sjö marka sigur á Eintracht Hildesheim á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×