Handbolti

Þórir: Stefnan að komast til Kölnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Ólafsson fagnar hér einu marka sinna á HM í Spáni í janúar.
Þórir Ólafsson fagnar hér einu marka sinna á HM í Spáni í janúar. Nordic Photos / Getty Images
Vive Targi Kielce frá Póllandi vann um helgina sinn tíunda sigur í jafnmörgum leikjum í C-riðli Meistaradeildar Evrópu. Liðið var fyrir löngu búið að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslitin en með sigrinum á slóvenska liðinu Gorenje Velenje á útivelli varð ljóst að Kielce er eina liðið í allri riðlakeppninni sem fór í gegnum alla leikina án þess að tapa stigi.

„Við vorum nokkuð öruggir með að vera eitt fjögurra liðanna sem kæmust áfram en við hefðum kannski ekki trúað því hefði einhver sagt okkur fyrirfram að við myndum vinna alla leikina," sagði Þórir sem var markahæstur í leiknum um helgina með sjö mörk.

„Það voru kannski erfiðari riðlar í keppninni en okkar en við þurftum að spila á nokkrum erfiðum útivöllum. Við erum gríðarlega ánægðir með árangurinn en nú hefst ný keppni í 16-liða úrslitunum. Við vildum koma okkur í sem bestu stöðu áður en dregið er í næstu umferð og það tókst með því að ná efsta sætinu," bætir hann við.

Fjögur lið komast úr riðlunum fjórum í næstu umferð. Dregið verður í 16-liða úrslitin en Kielce getur aðeins fengið lið sem höfnuðu í fjórða sæti síns riðils. Þórir veit þó að það getur allt gerst í útsláttarkeppni.

„Það tekur við í raun ný keppni en efsta sætið gefur okkur vissulega meiri möguleika en ella. Markmið okkar er að komast í „Final Four" í Köln og við teljum að það sé raunhæft. Það verður vissulega erfitt en það er allt hægt," segir Þórir en undanúrslitin og svo úrslitaleikurinn fara fram sömu helgina í Köln í Þýskalandi, eins og undanfarin ár.

Tveggja turna tal í deildinni

Segja má að deildin heima í Póllandi sé tveggja turna tal. Kielce er ríkjandi meistari, bæði í deild og bikar, og eina liðið sem getur velt liðinu af þeim stalli er Wisla Plock.

Þessi lið mætast einmitt um næstu helgi í nánast hreinum úrslitaleik um efsta sæti deildarinnar og heimaleikjaréttinn alla úrslitakeppnina.

„Wisla vann okkur á sínum heimavelli með sjö marka mun fyrr á tímabilinu og því hefðum við þurft að vinna þá með átta marka mun til að ná efsta sætinu nú. En Wisla var á dögunum dæmt 10-0 tap fyrir að útvega ekki lækna fyrir leik liðsins í deildinni. Liðið hefur reyndar áfrýjað þeim dómi," segir Þórir og bætir við að sínir menn fái ekki mikla mótspyrnu frá öðrum liðum í deildinni.

„Það er oft óþægilega mikill munur á liðunum og leikirnir eru oft fljótir að klárast. Það er svo átta liða úrslitakeppni í vor en fyrirkomulagið er umdeilt og umræðan um það ekki ósvipuð þeirri sem var á Íslandi lengi vel. Mikilvægi deildarinnar hefur fengið að líða fyrir það," segir Þórir sem hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu þar sem hinn hægri hornamaðurinn, Ivan Cupic, er meiddur.

„Við erum reyndar aðeins tveir örvhentir leikmenn í liðinu núna sem eru heilir og það má því lítið út af bera. Ég kom aftur eftir HM á Spáni með smá meiðsli og missti af tveimur leikjum í deildinni sem kom ekki að sök. Þetta hefur gengið upp hingað til," segir hann.

Strákarnir í pólskum skólum

Þórir er nú á sínu öðru ári í Póllandi og líður vel. Hann er með fjölskyldu með sér, konu og tvo syni. „Sá eldri er á áttunda ári og byrjaður í skóla þar sem hann talar pólsku. Það gengur mjög vel. Svo er sá yngri, sem er eins og hálfs árs, byrjaður í leikskóla og þarf núna að læra inn á allt þar," segir Þórir en um 200 þúsund manns eiga heima í Kielce.

„Við vorum búin að kynna okkur málin vel áður en við tókum þá ákvörðun að koma hingað og óhætt að segja að okkur líði vel hér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×