Sport

Sjálfir hálfgáttaðir á viðsnúningnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Bjarki í leik með Emsdetten.
Ólafur Bjarki í leik með Emsdetten.
Þýska B-deildarliðið Emsdetten hefur gefið mikið eftir í síðustu leikjum eftir frábært gengi framan af tímabili. Emsdetten hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum en er þrátt fyrir það enn á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forystu á næstu lið.

Fyrst kom tap fyrir botnliði Ferndorf um helgina og svo steinlá liðið fyrir Eintracht Hildesheim á miðvikudagskvöldið, 31-23. Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Hrafn Arnarson spila báðir með liðinu.

„Þetta byrjaði reyndar fyrir þremur leikjum, en þá vorum við bara heppnir að vinna því við vorum sex mörkum undir þegar rúmar tíu mínútur voru eftir," sagði Ólafur Bjarki við Fréttablaðið í gær. Hann sagði engar sérstakar skýringar á þessum viðsnúningi – ekki meiðsli lykilmanna eða neitt slíkt.

„Það væri fínt að geta falið sig á bak við það en það er ekki svo. Vörnin hefur verið okkar helsti styrkleiki en hefur verið að gefa eftir. Þá hefur markvarslan dottið niður og þau 5-10 hraðaupphlaupsmörk sem við erum með að öllu jöfnu hafa ekki verið að skila sér," segir Ólafur Bjarki enn fremur.

„Við erum sjálfir hálfgáttaðir á þessu. Það þýðir samt ekkert annað en að reyna að finna vandamálið og laga það. Vonandi náum við að koma okkur á réttu brautina sem allra fyrst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×