Handbolti

Malovic samdi við Amicitia Zürich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nemanja Malovic er farinn til Sviss.
Nemanja Malovic er farinn til Sviss. Fréttablaðið/Stefán
Svartfellingurinn Nemanja Malovic skrifaði í gær undir tveggja ára samning við svissneska liðið Amicitia Zürich. Hann lék síðast með ÍBV hér á landi og því ljóst að hann mun ekki leika með liðinu í N1-deild karla á næstu leiktíð.

Þetta var staðfest á heimasíðu svissneska liðsins í gær. Á heimasíðu ÍBV segir að það hafi verið mikill vilji til að fá Malovic aftur en ekki hafi verið hægt að keppa við þau laun sem hafi verið í boði í Sviss.

Malovic var markahæsti leikmaður 1. deildar karla á nýliðinni leiktíð en var sendur úr landi í síðasta mánuði þar sem hann var ekki með atvinnu- og dvalarleyfi. Hans síðasta verk var að hjálpa ÍBV að tryggja sér sæti í N1-deild karla með sigri á Stjörnunni en morguninn eftir fór hann úr landi.

Svissneska félagið var fljótt að bregðast við og hefur nú samið við Malovic. Hann er í U-21 liði Svartfjallalands og ekki langt frá því að vinna sér sæti í A-landsliðinu. Malovic kom fyrst hingað til lands árið 2011 til að spila með Haukum.

ÍBV baðst á sínum tíma afsökunar á því hafa ekki útvegað Malovic þau leyfi sem hann þurfti til að búa og starfa hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×