Körfubolti

Jón Arnór í undanúrslitum í fimmta skipti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór í leik með CAI Zaragoza.
Jón Arnór í leik með CAI Zaragoza. Mynd/Ramón Cortés www.caistas.net

Jón Arnór Stefánsson hefur fjórum sinnum áður komist í undanúrslit í úrslitakeppni á atvinnumannaferlinum en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst svona langt í spænsku ACB-deildinni.

Jón Arnór komst fjórum sinnum í undanúrslit í ítölsku deildinni og það með þremur liðum; Carpisa Napoli (2005-06), Lottomatica Roma (2006-07, 2007-08) og Benetton Treviso (2008-09).

Jón Arnór fór alla leið í lokaúrslitin með Lottomatica Roma vorið 2008 en liðið tapaði þá fyrir Montepaschi Siena. Jón Arnór varð reyndar þrisvar sinnum í röð að sætta sig við að detta út fyrir Montepaschi-liðinu, sem varð ítalskur meistari í öll skiptin.

Vinir fyrir lífstíð í Zaragoza.

Það munaði líka litlu að Jón Arnór færi í lokaúrslitin á Ítalíu árið 2006 með nýkrýndum bikarmeisturum Carpisa Napoli en liðið tapaði þá í oddaleik í undanúrslitum. Jón Arnór tók líka þátt í úrslitakeppni með Dynamo St. Petersburg veturinn sem liðið vann FIBA Europe League. Liðið tapaði þá í oddaleik í átta liða úrslitum og komst því ekki í undanúrslitin.

Jón Arnór hefur auk þessa spilað fjórum sinnum í undanúrslitum á Íslandi með liði KR eða vorin 2000, 2001, 2002 og 2009. Jón Arnór er að spila fjórða tímabilið í röð á Spáni en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst í úrslitakeppnina. CB Granada varð í 10. (2009-10) og 17. sæti (2010-11) og CAI Zaragoza endaði í 10. sæti á síðasta tímabili.

Sportið á Vísi er á Facebook. Fylgstu með.


Tengdar fréttir

Jón Arnór og félagar í undanúrslit

Jón Arnór Stefánsson skoraði 13 stig fyrir CAI Zaragoza þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum spænska körfuboltans með 83-77 útisigri á Valencia.

Hægt að sjá Jón Arnór spila gegn Real Madrid

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir hefur ákveðið að bjóða upp á ferð til Madrid þar sem hægt verður að sjá Jón Arnór Stefánsson spila gegn Real Madrid um næstu helgi.

Það var allt brjálað í höllinni

"Þetta var yndislegt kvöld í alla staði. Þetta var hörkuleikur. Við vorum góðir frá byrjun og sterkari í lokin. Maður hafði einhvern veginn alltaf trú á því að við myndum taka þetta," sagði sigurreifur Jón Arnór Stefánsson í samtali við Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×