Handbolti

Ég sá þessi endalok ekki fyrir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes Jón er hér ásamt konu sinni, Hörpu Jóhannsdóttur, og börnum þeirra tveim - Sólveigu Birtu, 4 ára, og Jóhanni Úlfi sem verður brátt tveggja ára.mynd/aðsend
Hannes Jón er hér ásamt konu sinni, Hörpu Jóhannsdóttur, og börnum þeirra tveim - Sólveigu Birtu, 4 ára, og Jóhanni Úlfi sem verður brátt tveggja ára.mynd/aðsend

"Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður í dag. Þetta er búið að kosta mikla vinnu og fókus og tilfinningin er frábær. Þetta er tilfinning sem maður upplifir kannski bara einu sinni á ferlinum og það er um að gera að njóta hennar,“ segir Hannes Jón Jónsson en hann mun aldrei gleyma þessu handboltatímabili sem nú er að ljúka.

Félag hans, Eisenach, er komið upp í bestu deild í heimi, flestum að óvörum, og Hannes hefur sjaldan eða aldrei leikið jafnvel þrátt fyrir veikindin.

Í október á síðasta ári greindist miðjumaðurinn með þrjú illkynja æxli í þvagblöðrunni sem þurfti að fjarlægja. Í kjölfarið tók við lyfjameðferð og hann snéri því ekki aftur út á handboltavöllinn fyrr en í febrúar.

Sú endurkoma var lyginni líkust. Hann skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og tryggði sínu liði sigur. „Þetta var Hollywood-moment,“ sagði Hannes í viðtali við Fréttablaðið eftir þann leik.

Það sem eftir lifði vetrar fór Hannes Jón á kostum og á ansi stóran þátt í því að liðið komst upp í efstu deild. Hann er í þriðja sæti deildarinnar yfir þá sem hafa skorað flest mörk að meðaltali í vetur. Hann er með 6,3 mörk að meðaltali í leik og Hannes skorar flest mörk allra á heimavelli eða 7,1 mark að meðaltali.

Mikilvægi Hannesar kristallast einnig í því að hann er með næstbestan árangur í skoruðum mörkum á síðustu 15 mínútum leikja. Þá skorar Hannes 4,4 mörk að meðaltali í leik. Það þarf því ekki að koma á óvart að hann hafi verið valinn besti leikmaður deildarinnar með nokkrum yfirburðum.

Hannes er hér með verðlaunin fyrir að vera valinn bestur,

„Þessi útnefning kom mér á óvart því ég missti úr ellefu leiki. Ég vona að ég hafi fengið þessi verðlaun af því ég átti þau skilið en ekki af því ég varð veikur. Ég sá þessi endalok ekki fyrir þegar ég veiktist í upphafi tímabilsins,“ segir Hannes Jón og bætir við. „Þegar maður veikist svona verður handboltinn bara pínulítill. Maður hlær af því að maður sé í rusli yfir því að tapa handboltaleikjum. Ég hugsa hvað sé að manni og hvernig maður nenni að vera leiðinlegur við konuna sína í tvo daga út af einhverjum tapleik. Það gekk vel er ég kom til baka en það kostaði sitt. Ég er þakklátur fyrir það hvernig líkaminn hefur tekið við lyfjagjöfinni. Ég hef líka hugsað vel um mig. Breytt algjörlega mataræðinu og einnig breytt svefnvenjum. Ég trúi að það hafi hjálpað til.“

Hannes er laus við krabbameinið í dag en þarf samt að gangast undir lyfjameðferðir einu sinni í mánuði í ár. Næstu tvö árin fer hann síðan á þriggja mánaða fresti í litla aðgerð þar sem hann er grandskoðaður. Þetta eru fyrirbyggjandi aðgerðir og Hannes hrósar heilbrigðiskerfinu í Þýskalandi í hástert.

Það er alþekkt að fólk sem lendir í svona erfiðri lífsreynslu breytist. Hefur þessi lífsreynsla breytt Hannesi Jóni mikið?

„Ég vona það og þá til hins betra. Ég vona að ég sé þakklátari fyrir það sem ég á og það sem ég er í dag. Vonandi nýt ég þess meira nú en áður. Nú minni ég mig líka á að vera ekki að æsa mig yfir hlutum sem skipta ekki öllu máli. Ég mun alltaf búa að þessari lífsreynslu. Svo á eftir að koma í ljós hvort að fleiri svona erfið verkefni verði lögð fyrir mig í framtíðinni. Það sem upp úr stendur eftir svona rússibanareið er fyrst og fremst þakklæti til allra sem hafa hjálpað mér.“

Hannes er orðinn 33 ára gamall og hefur víða komið við á ferlinum. Fyrstu ár ævi sinnar var hann í Vogum á Vatnsleysuströnd og í Hrútafirði. Þegar hann var sjö ára flutti hann síðan í bæinn og bjó hann í Hlíðunum þar til hann flutti að heiman.

„Ég ólst upp hér og þar í raun og veru. Ég fór alltaf í sveit til afa og ömmu í Hrútafirði á sumrin og fannst það æðislegt. Mér finnst enn frábært að fara þangað. Ég gæti vel hugsað mér að flytja þangað síðar en þarf að ræða það aðeins betur við konuna mína,“ segir Hannes og hlær við.

Hann hlær líka létt er hann er fenginn til þess að lýsa því hvernig hann var sem barn og unglingur.

„Ég var frekar strembinn og fyrirferðarmikill. Ég var sjálfstæður, frekur og bara helvíti erfiður. Gömlu kennararnir mínir í Hlíðaskóla snúa sér nánast enn við á punktinum er þeir sjá mig út á götu.“

Hannes í landsleik.

Hannes Jón fékk þó einnig útrás í íþróttunum en hann byrjaði ungur að æfa bæði handbolta og fótbolta hjá Val.

„Það var gott að hafa Val við hliðina á sér og við félagarnir vorum þar allir. Ég byrjaði fyrst í fótboltanum og fór í handboltann níu ára. Ég áttaði mig fljótt á því að handboltinn átti betur við mig enda var ég mun betri í honum en fótboltanum. Að vera í sveit á sumrin fór líka með fótboltann hjá mér. Þá fór ég í frjálsar íþróttir í sveitinni. Við í USVH vorum með öflugt lið. Þar voru meðal annars Guðmundur Hólmar spjótkastari og Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem er heldur betur búin að gera það gott í frjálsíþróttaheiminum.“

Hjá Val var Hannes með marga frábæra þjálfara eins og Jón Halldórsson, Sigurð Sigurþórsson, Óskar Bjarna Óskarsson og þá Boris og Mikhael Akbashev.

„Ég var ekkert eðlilega heppinn með þjálfara. Þetta eru bestu þjálfarar landsins. Svo voru forréttindi að hafa allar Valshetjurnar fram á gangi. Menn sem maður leit upp til eins og Óli Stefáns, Dagur Sig, Júlli Jónasar, Geir Sveins, Gummi Hrafnkels, Jón Kristjáns og fleiri.“

Aðeins 17 ára gamall varð Hannes fyrir miklu áfalli. Hann meiddist mjög illa í hægri öxlinni og varð frá æfingum og keppni í rúm tvö ár. Á meðan blómstruðu vinir hans á vellinum og sá tími var erfiður fyrir ungan og metnaðarfullan íþróttamann.

„Þetta var svakalega erfitt og ég fór að efast um sjálfan mig. Vinir mínir voru að slá í gegn í boltanum á meðan ég sat á hliðarlínunni nánast með tárin í augunum. Ég man að ég gat ekki opnað íþróttasíðuna í blöðunum í marga mánuði,“ segir Hannes en hann fór á nýjar slóðir er hann gat byrjað að æfa upp á nýtt.

„Boris Bjarni Akbashev tekur svo við ÍBV á þeim tíma og ég hefði ekki komist í liðið hjá 2. flokki Vals á þessum tíma en hann var reyndar frábær. Boris fær mig með sér til Eyja þar sem ég gat æft eins og atvinnumaður. Það ár er líklega dýrmætasta árið á mínum ferli. Þar komst ég af stað aftur og ég æfði meira þar en ég hef gert í atvinnumennskunni. Þetta ár í Vestmannaeyjum bjargaði mínum ferli.“

Hannes fór í Val eftir dvölina í Eyjum en fékk lítið að spila og fór því á Selfoss þar sem hann var búinn að taka ákvörðun um að gerast hornamaður. Ekkert varð af því að hann yrði hornamaður til frambúðar en reynslan sem hann náði sér í þá hefur nýst honum vel á síðari árum. Meðal annars hefur hann spilað sem hornamaður fyrir íslenska landsliðið.

Forsmekkinn af atvinnumennsku fékk Hannes á seinna árinu sína hjá Selfossi en þá fór hann eftir áramót til spænska liðsins Oviedo þar sem hann lék fram á sumar.

„Interrail á Spáni í nokkra mánuði. Það var ævintýri og mjög skemmtilegt. Þetta var mikil upplifun fyrir ungan mann,“ segir Hannes og þegar heim kom fór hann í ÍR. Þar spilaði hann í geysisterku liði með mönnum eins og Ingimundi Ingimundarsyni, Einari Hólmgeirssyni, Sturlu Ásgeirssyni, Hreiðari Levý Guðmundssyni og fleiri góðum. Þjálfari liðsins var svo kempan Júlíus Jónasson.

„Þetta voru alveg frábær tvö ár með stórskemmtilegum hópi. Það ætluðu nánast allir þarna að verða atvinnu- og landsliðsmenn og það urðu það flestir. Það voru mikil átök og metnaður á æfingum. Við urðum bikarmeistarar en ekki Íslandsmeistarar. Tite Kalandadze tók það af okkur. Við vorum með hrikalegt tak á Haukunum en komumst ekki í úrslitin út af Tite. Hann var aftur á móti algjörlega búinn á því eftir rimmuna gegn okkur og Haukar urðu meistarar.“

Eftir skemmtilegan tíma í ÍR, þar sem Hannes tók miklum framförum, var komið að því að stíga skrefið til fulls og fara í atvinnumennsku. Úr varð að Hannes flutti til Kaupmannahafnar þar sem hann samdi við Ajax.

„Það var gott skref fyrir mig þá. Ég hafði ekki beint úr miklu að velja. Hinir strákarnir í ÍR höfðu úr ýmsu flottu að velja en þetta var nánast það eina sem mér stóð til boða. Það var annað hvort að taka þessu boði eða vera eftir einn heima á Íslandi. Mér fannst þetta samt spennandi því Köben er spennandi og pabbi bjó þar líka. Þetta var samt ekki stórt skref frá ÍR hvað varðar handboltann. Við vorum nýliðar í deildinni, í basli allt árið en björguðum okkur undir lokin,“ segir Hannes en Ajax-ævintýrið var stutt því á öðru ári hans þar fór liðið á hausinn og leikmenn máttu fara.

Úr varð að Hannes fór til norska liðsins Elverum í nokkra mánuði. Sumarið 2007 fer hann svo aftur til Danmerkur og að þessu sinni samdi hann við Fredericia.

„Ég var mjög nálægt því að fara til Melsungen í Þýskalandi á þeim tíma en fór frekar til Danmerkur. Það ár var tómt vesen og vonbrigði. Það sem bjargaði mér þá var að ég var með ofboðslega góða nágranna og var líka alveg svakalega skotinn í nýju kærustunni minni. Svo komst ég í landsliðið og það voru því jákvæðir punktar þó svo félagið væri í steik og allt í rugli.“

Hannes í leik með Hannover gegn Kiel.

Eftir mikið flakk undanfarin ár kom að því að Hannes samdi við félag þar sem ekki var tjaldað til einnar nætur. Það var þýska félagið Hannover-Burgdorf. Þar spilaði Hannes næstu fjögur árin. Liðið var í B-deildinni er hann kom til þeirra en liðið fór beint upp í úrvalsdeild.

Heiðmar Felixson var þar er Hannes kom til félagsins en fór eftir fyrsta árið. Íslendingum átti eftir að fjölga þar er Aron Kristjánsson varð þjálfari liðsins og tók með sér þá Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vigni Svavarsson.

„Þetta ár með Aroni fór sorglega af stað og hann var látinn fara eftir áramót. Aron er frábær þjálfari sem vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Hann var látinn fara er liðið átti fram undan leiki sem var hægt að vinna. Það var „dirty“. Amma mín hefði getað þjálfað líðið í þessum leikjum og unnið þá. Það sem varð honum kannski að falli er að hann talaði ekki nógu góða þýsku. Þegar það fór að gefa á bátinn var það notað gegn honum. Hann átti samt vel heima í þýska boltanum.“

Síðasta sumar ákvað Hannes Jón að semja við Eisenach sem Aðalsteinn Reynir Eyjólfsson þjálfar. Það reyndist vera góð ákvörðun hjá honum enda stendur hann uppi í dag sem besti maður deildarinnar á leið í úrvalsdeild. Það er farið að síga á seinni hluta ferilsins hjá Hannesi og hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvað hann geri þegar skórnir fara upp í hillu. Þjálfun er þó eitthvað sem hann hefur áhuga á.

„Stefnan var að koma heim áður en krakkarnir byrja í skóla. Við ætlum aftur á móti ekki bara að flytja heim til þess að mæla göturnar. Ef ég færi í þjálfun finnst mér líklegt að ég myndi gera það strax hérna úti. Það er samt ekkert ákveðið í þeim efnum en sú hugsun kemur sífellt oftar upp í hausinn á mér. Ef ég fer í það þá verður framhald á því að við búum úti. Þetta snýst bara um að vera duglegur og standa sig. Þá kemur eitthvað gott upp í hendurnar á manni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×