Handbolti

Gripu ekki tækifærið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir okkar voru flestir hverjir langt frá sínu besta í Minsk í gær. Vonandi sýna þeir sitt besta í lokaleiknum gegn Rúmeníu og kveðja Ólaf Stefánsson með sæmd.
Strákarnir okkar voru flestir hverjir langt frá sínu besta í Minsk í gær. Vonandi sýna þeir sitt besta í lokaleiknum gegn Rúmeníu og kveðja Ólaf Stefánsson með sæmd. Fréttablaðið/Vilhelm

Aron Kristjánsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, segir of marga leikmenn hafa spilað undir getu í sex marka tapi gegn Hvít-Rússum ytra í gær. Sóknarleikinn þarf að bæta fyrir leikinn gegn Rúmeníu.

Íslenska karlalandsliðið sá ekki til sólar í 29-23 tapi gegn Hvíta-Rússlandi ytra í gær. Leikurinn var sá næstsíðasti í undankeppni fyrir Evrópumótið í Danmörku í ársbyrjun 2014. Strákarnir okkar héldu í við heimamenn fram í miðjan fyrri hálfleikinn. Í stöðunni 6-6 skildi leiðir.

„Við vissum svo sem fyrir fram að þetta gæti orðið gríðarlega erfiður leikur. Það vantar marga lykilmenn og margir óreyndir leikmenn sem komu í þeirra stað,“ segir landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson.

Hann segir leikmenn liðsins hafa gert sig seka um of mörg mistök í sóknarleiknum í fyrri hálfleiknum.

„Við klúðruðum sendingu og tókum rangar ákvarðanir,“ segir Aron. Skynsemi hafi skort þegar munurinn var tvö til þrjú mörk. Þá fóru of mörg góð færi forgörðum.

„Fyrir vikið misstum við þá of langt fram úr okkur undir lok fyrri hálfleiks.“

Standa betur innbyrðis

Fyrir leikinn var vitað að sama hver úrslitin í leiknum yrðu væri sæti Íslands á EM tryggt. Þess utan dygði liðinu sigur í lokaleiknum gegn Rúmeníu á sunnudaginn til að tryggja sér efsta sæti riðilsins. Liðinu dugar nú jafntefli þar sem liðið stendur betur að vígi gegn Hvíta-Rússlandi eftir átta marka sigur í leiknum á Íslandi.

Aron segist hafa verið meðvitaður um það snemma í síðari hálfleiknum að leikurinn væri tapaður. Mestu máli skipti að tapa með minna en átta marka mun.

„Við tókum leikhlé í byrjun síðari hálfleiks þegar við vorum lentir tíu mörkum undir. Þá lögðu við áherslu á að standa betur í innbyrðis leikjunum,“ segir Aron. Hann segist hafa verið ánægður með spilamennsku liðsins síðasta stundarfjórðunginn.

„Þá gerðum við töluvert af breytingum sem mér fannst skila sér vel. Bjarki Már (Gunnarsson) kom sterkur inn í varnarleikinn og Ernir (Hrafn Arnarson) fyrir utan hægra megin,“ segir Aron. Með tilkomu Ólafs Gústafssonar í stöðu vinstri skyttu, Arnórs Atlasonar á miðjunni og Atla Ævars Ingólfssonar á línuna hafi komið betra flæði í sóknarleikinn. Það hafi vantað fram að því sem hafi orðið til þess að íslensku strákarnir reyndu erfið skot.

Gripu ekki tækifærið

Aron segir of marga leikmenn íslenska liðsins hafa spilað undir getu í leiknum.

„Það eru of margir sem eiga inni. Sérstaklega menn sem fengu stærra hlutverk en áður hjá liðinu. Maður vill sjá menn grípa tækifærið og standa sig.“

Daníel Freyr Andrésson og Ólafur Stefánsson koma til móts við hópinn fyrir leikinn gegn Rúmeníu. Leikurinn verður kveðjuleikur Ólafs með landsliðinu en nauðsynlegt er að ná góðum úrslitum til að verða í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina í Danmörku.

„Ólafur er í toppformi og styrkir auðvitað liðið. Ég veit að hann og allir leikmenn liðsins vilja leggja sig 100 prósent fram til að fá góðan kveðjuleik og einnig góðan síðasta leik fyrir sumarfríð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×