Körfubolti

Greiði á móti greiða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hörður Axel á ferðinni með íslenska landsliðinu.
Hörður Axel á ferðinni með íslenska landsliðinu.
Hörður Axel Vilhjálmsson heldur í dag utan til æfinga með spænska stórliðinu Bilbao Basket. Hörður er án félags eftir að hann keypti upp samning sinn við þýska úrvalsdeildarfélagið Mitteldeutscher BC í sumar.

„Þetta er lið með mikla sögu og ég lít á það sem mikinn heiður að fá að æfa með þeim,“ segir Hörður Axel. Liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð. Til samanburðar hafnaði CAI Zaragoza, lið Jóns Arnórs Stefánssonar, í áttunda sæti í deildarkeppninni.

„Þeir eru að gera mér greiða og ég þeim á móti,“ segir Hörður Axel. Evrópukeppni landsliða er fram undan í september og því vantar marga fasta hlekki á æfingar liðsins næsta mánuðinn. Landsliðsmaðurinn fær því gott tækifæri til að halda sér í formi og sýna sig og sanna.

„Ég fer út með því hugarfari að ég sé að fara að halda mér í formi þar til umboðsmaðurinn finnur eitthvað. Ef þeim líst vel á mig væri það bara bónus.“

Hörður Axel segir líklegast að hann endi hjá félagi í Þýskalandi þar sem hann sé orðinn nokkuð þekkt stærð.

„Eins og staðan er í dag er maður að skoða það ásamt fleiri stöðum. Það er engin tilviljun að maður sé að fara til Spánar að æfa. Það væri auðvitað draumur,“ segir Fjölnismaðurinn uppaldi.

Svo skemmtilega vill til að Bilbao Basket mætir CAI Zaragoza í fyrstu umferðinni þann 13. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×