Körfubolti

Pavel ekki einn í þrennuklúbbnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij
Pavel Ermolinskij
Þrennuklúbbur Dominos-deildar karla í körfubolta er alíslenskur eftir leiki fimmtudagskvöldsins en þá tryggði þriðji íslenski leikmaðurinn sér aðild að klúbbnum. Þrenna telst það þegar körfuboltamaður kemst yfir tíu í þremur tölfræðiþáttum sem eru vanalega stig, fráköst og stoðsendingar þótt sumir nái því einnig stundum í stolnum boltum og vörðum skotum.

Matthías Orri Sigurðarson, yngri bróðir landsliðsmannsins Jakobs Arnar hjá Sundsvall, fór á kostum í sigri ÍR-liðsins á Val og bættist þá í hóp með Pavel Ermolinskij hjá KR og Emil Barja hjá Haukum.

Matthías var með 22 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar í leiknum á móti Val en þessi 19 ára leikstjórnandi tapaði aðeins einum bolta á 37 mínútum. Hann var í rauninni með fernu því hann fiskaði einnig tíu villur á Valsmenn í þessum mikilvæga leik. Það var magnað að sjá strákinn taka hvert frákastið á fætur öðru inn á milli stóru leikmanna liðanna.

Pavel Ermolinskij varð fyrsti meðlimur í þrennuklúbbi tímabilsins og kom það fáum á óvart. Pavel var nefnilega að ná sinni tólftu þrennu á Íslandsmótinu. Snæfellingar réðu ekkert við kappann sem var með 20 stig, 22 fráköst og 13 stoðsendingar í sigurleik í Hólminum.

Emil Barja bættist í hópinn í sigri Hauka á Snæfelli en hann var með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar í þeim leik. Emil hefur verið í nágrenni við þrennuna í nær öllum leikjum og meðaltölin hans í fyrstu fimm leikjunum eru 9,6 stig, 9,0 fráköst og 8,2 stoðsendingar.

Hvort fleiri bætist í hópinn á næstunni verður síðan að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×