Golf

Bubba Watson deilir nú efsta sætinu með Matt Jones

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bubba Watson.
Bubba Watson. Vísir/Getty
Bubba Watson, fyrrum sigurvegari á Mastersmótinu og Ástralinn Matt Jones eru eftir og jafnir eftir annan keppnisdag á Phoenix Open golfmótinu á PGA-mótaröðinni. Bubba Watson var líka í forystu eftir fyrsta daginn en deildi þá efsta sætinu með Suður-Kóreumanninum YE Yang.

Matt Jones er búinn að klára báða dagana á 65 höggum eða sex undir pari en Bubba Watson lék annan hringinn á 66 höggum eftir að hafa klárað hringinn á 64 höggum í gær.

Bubba Watson er að reyna að vinna sitt fyrsta móti eftir sigur sinn á Mastersmótinu árið 2012 og var í góðum málum eftir sjö fugla á hringinn en tveir skollar á síðustu þremur holunum hleypti Jones á toppinn með honum.

Matt Jones á heimili rétt hjá golfvellinum og er því nánast á heimavelli. Hann er auk þess mikið uppáhald hjá áhorfendum. Hann fékk fugl á þremur af fyrstu fjórum holum sínum og fékk síðan fugla á þremur holum í röð eftir sinn eina skolla á hringnum. Jones náði sjö fuglum á öðrum hringnum eins og Watson.

Þeir Bubba Watson og Matt Jones hafa tveggja högga forskot á næstu menn sem eru þeir Greg Chalmers og Harris English. Þeir spiluðu báðir annan hringinn á 67 höggum.

Phil Mickelson á titil að verja á mótinu en hann hefur verið að glíma við bakmeiðsli að undanförnu. Mickelson náði í gegnum niðurskurðinn en er í 27. sæti og átta höggum á eftir efstu mönnum. Hann lék á fjórum höggum undir pari eftir að hafa komið inn á parinu á fyrsta deginum.

Efstu menn eftir tvo daga á Phoenix Open:

1. Matt Jones -12

1. Bubba Watson  -12

3. Harris English -10

3. Greg Chalmers -10

5. Kevin Stadler -9

5. Pat Perez -9

5. Hideki Matsuyama -9

8. William McGirt -8

8. Brandt Snedeker -8

8. Scott Piercy -8

8. Patrick Reed -8

Sýnt er beint frá mótinu á Golfstöðinni og hefst útsending frá þriðja keppnisdegi klukkan 18.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×