Handbolti

Ekki dagur Arons Rafns en Guif vann samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson.
Aron Rafn Eðvarðsson. Vísir/Daníel
Íslendingaliðið Guif vann góðan sex marka útisigur Ystad í kvöld, 27-21, í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í Guif eru nú í 2. sæti deildarinnar með 33 stig en hafa leikið einum leik meira en Lugi (33 stig) og Alingsås HK (32 stig) sem koma í næstu sætum. Kristianstad er á toppnum með 37 stig og á auk þess tvo leiki inni á Guif.

Heimir Óli Heimisson átti fínan leik á línunni og skoraði fjögur mörk úr sex skotum en þetta var ekki dagur landsliðsmarkvarðarins Arons Rafns Eðvarðssonar sem varði aðeins 3 af 16 skotum sem hann reyndi við (16 prósent).

Aron Rafn tapaði einnig einum bolta og fékk mínus í einkunn (-1,02) í tölfræðikerfi sænska handboltasambandsins.

Heimir Óli var annar markahæsti leikmaður liðsins á eftir Mathias Tholin sem skoraði fimm mörk en Rickard Akerman var með 4 mörk og 8 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×