Handbolti

Kolding óstöðvandi undir stjórn Arons

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson Vísir/Getty
Kolding vann í dag sinn fjórða leik í röð undir stjórn Arons Kristjánssonar er liðið lagði Dunkerque að velli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Kolding er í öðru sæti riðilsins eftir leikinn með fjórtán stig úr tíu leikjum, þremur stigum á eftir toppliði Kiel.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Leikmenn Kolding náðu að vinna upp tveggja marka forskot Dunkerque rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og fóru liðin jöfn inn í hálfleik í stöðunni 16-16.

Í seinni hálfleik voru leikmenn Kolding skrefinu á undan en náðu aldrei að hrista gestina alveg af sér. Leiknum lauk með 26-24 sigri Kolding sem vann einnig fyrri leik liðanna í Frakklandi með tveimur mörkum.

Albert Rocas var atkvæðamestur í liði Kolding með átta mörk en í liði Dunkerque var Lie Hansen markahæstur með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×