Körfubolti

Maggi Gun: Þetta Keflavíkurlið fer alla leið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. Vísir/Stefán
Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Keflvíkinga, hefur mikla trú á sínu liði í úrslitakeppni Dominos-deildar karla þrátt fyrir erfiðan endakafla í deildarkeppninni. Magnús er í viðtali á heimasíðu Keflavíkur.

Keflvíkingar mæta Stjörnunni í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar og það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í undanúrslitin.

„Ef liðið er ekki ready núna þá verður það aldrei ready. Þetta er tíminn til að láta ljós sitt skína," sagði Magnús í viðtalinu en hann segist vera orðinn heill og því tilbúinn að berjast fyrir fimmta Íslandsmeistaratitli sínum á ferlinum.

„Þetta lið er með þeim bestu sem ég hef spilað fyrir og það fer alla leið, ég held að það sé ekki spurning," sagði Magnús og bætir við:

„Við þurfum fyrst og fremst að spila almennilegan bolta og reyna að rífa fólkið í stúkunni með okkur. Það sakar ekki að bestu borgararnir eru grillaðir í Kef-City og því ekkert til fyrirstöðu að áhorfendur mæti á völlinn og fái sér einn glóðaðan að hætti Alla "medium rare" Óskars og Óla Ásmunds auk þess að horfa á flottan leik," sagði Magnús léttur að vanda.

„Ég vill auðvitað fá trommur og læti og ef það kemur trommusveit þá lofa ég góðum úrslitum og skemmtilegri úrslitakeppni fyrir Kef. Allir að mæta og við hættum ekki fyrr en titillinn er okkar," sagði Magnús en það er hægt að finna allt viðtalið við hann með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×