Handbolti

Dagur: Farið með leikmenn eins og í kjötvinnslu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson bendir á afleiðingar aukins leikjaálags.
Dagur Sigurðsson bendir á afleiðingar aukins leikjaálags. Vísir/Gety
Dagur Sigurðsson, þjálfari 1. deildar liðsins Füchse Berlín, er í ítarlegu viðtali við handboltavefinn Handball-World.com þar sem hann ræðir gífurlegt leikjaálag í íþróttinni.

Bestu leikmenn heims geta verið að spila allt að 80 leiki á ári í deild, bikar, Evrópukeppnum auk landsleikja. Þetta leiðir til fleiri meiðsla og hefur vefurinn tekið saman 20 nokkuð alvarleg og mjög alvarleg meiðsli innan herbúða fimm efstu liða þýsku deildarinnar undanfarin tvö ár.

„Það voru einfaldlega færri leikir. Evrópumót landsliða hefur t.d. aðeins verið til í 20 ár. Leikjaálagið var ekki jafnmikið í þá daga,“ segir Dagur aðspurður hver munurinn er á handboltanum í dag og þegar hann var upp á sitt besta.

„Það eru margir hlutir sem hafa gerst. Evrópumótið varð til 1994 og leikurinn hefur orðið mun hraðari síðan hröð miðja var tekin upp. Síðan hafa bæst við keppnir eins og Meistaradeildin og heimsmeistarakeppni félagsliða. Og nú, 20 árum síðar, sjáum við afleiðingarnar. Þetta er ekki lengur mannlegt. Þetta líkist kjötvinnslu,“ segir Dagur.

Hann bendir á að leikjaálagið verði til þess að stórstjörnur dragi sig út úr landsliðinu vegna álags eða geta einfaldlega ekki verið með á stórmótum eða í mikilvægum leikjum vegna meiðsla. Við Íslendingar þekkjum þetta vel en Alexander Petersson var ekki með á EM vegna meiðsla svo dæmi sé tekið.

„Það eru mun fleiri sem melda sig ekki í landsliðið lengur. Hjá Þýskalandi hefur undanfarið vantað Johannes Bitter, Christian Zeitz, Pascal Hens og Holger Glandorf og Danir voru án Nikolaj Markussens og Rasmusar Lauge á EM,“ segir Dagur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×