Viðskipti erlent

Síðasti afastrákur Henry Ford dáinn

Finnur Thorlacius skrifar
William Clay Ford á einum af eldri bílum Ford.
William Clay Ford á einum af eldri bílum Ford.
William Clay Ford, fyrrum stjórnarformaður Ford Motor Co. lést í gær 88 ára gamall. Hann var síðasta eftirlifandi barnabarn Henry Ford stofnanda Ford bílafyrirtækisins. William lést úr lungnabólgu á heimili sínu í Michigan.

William var ungur að árum er hann var farinn að gegna ábyrgðarstöðum í Ford fyrirtækinu, en 23 ára var hann kominn í stjórn þess. Hann hætti störfum í Ford árið 2005 eftir nær hálfrar aldar starf. Sonur William og nafni er nú stjórnarformaður Ford bílarisans. William eldri var sonur Edsel Ford og yngstur fjögurra barna hans, en Edsel var eina barn Henry Ford. Bróðir William, Henry Ford II, var lengi forstjóri Ford og síðar meir stjórnarformaður Ford, en hann dó árið 1987.

William giftist Martha Firestone, en afi hennar var stofnandi Firestone dekkjaframleiðandans. Þau voru því bæði af þriðju kynslóð frumkvöðla í bíliðnaðinum og liðu lítinn skort á sinni ævi. William útskrifaðist úr Yale sem hagfræðingur árið 1949 og hóf í kjölfarið störf hjá fjölskyldufyrirtækinu.

William Ford keypti NFL ruðningsliðið Detroit Lions árið 1964 og hefur átt það allar götur síðan. Eiginkona William til 66 ára lifir eiginmann sinn ásamt 4 börnun, 14 barnabörnum og 2 barnabarnabörnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×