Körfubolti

Ingi Þór: Ég sé ekkert lið stöðva KR

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson.
Ingi Þór Steinþórsson.
„Með allri virðingu fyrir okkur sjálfum vorum við að mæta lang besta liði landsins hér í kvöld og ég sé ekkert lið stoppa þá," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, hreinskilinn eftir leikinn gegn KR í kvöld þar sem lærisveinum hans var sópað í frí.

„Þegar þú spilar á móti KR ertu ekkert að reyna að stoppa einn eða tvo leikmenn. Það er frábær boltahreyfing og menn tilbúnir að hjálpa hvor öðrum. Allir leikmennirnir bera virðingu fyrir hvor öðrum og spilamennskan er þannig að eina sem getur stoppað þá í vetur eru þeir sjálfir.

„Ég ber mikla virðingu fyrir því sem Finnur og leikmennirnir hans eru búnir að gera hérna. Það er ekki auðvelt að vera með jafn marga góða leikmenn en þeir eru vel samstilltir og skilja sín hlutverk."

Ingi neyddist til að taka leikhlé eftir rúmlega mínútu þegar staðan var 10-2 fyrir KR.

„Ég henti kananum útaf, hann nennti ekki að spila vörn í byrjun og við náðum að jafna. Við lögðum okkur alla fram hérna í dag og náðum forskotinu nokkrum sinnum en ef þú ætlar að vinna KR þá geturðu ekki leyft þeim að skora 100 stig."

„Við vorum að gera mun betur en í fyrri leikjunum á þessum grunnatriðum, við vorum árásargjarnari í sóknarleiknum en hlutirnir duttu ekki með okkur í varnarleiknum. Þeir eru með gríðarlega heildsteypt lið sem ég ber mikla virðingu fyrir,"

Ingi var ekki ánægður með árangur tímabilsins.

„Við förum ósáttir frá tímabilinu, við ætluðum ekki að detta út í fyrstu umferð. Við hefðum viljað ná sjötta sæti og það munaði ekki miklu. En svona er körfubolti, við lentum í þessu og verkefnið var einfaldlega of stórt fyrir okkur." 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×