Handbolti

Guðmundur: Verðum að hafa einbeitinguna í lagi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, hefur lagt mikla áherslu á að hans menn mæti vel undirbúnir fyrir leik liðsins gegn Emsdetten í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það hefur gengið á ýmsu síðustu daga en Handknattleikssamband Evrópu hefur opnað rannsókn á framkomu Talant Dujshebaev, þjálfara Kielce, gagnvart Guðmundi eftir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Guðmundur segist í samtali við þýska fjölmiðla í dag að lið hans hafi ekki efni á að vanmeta lið Emsdetten þó það sé í neðsta sæti deildarinnar.

„Staða liðsins í deildinni er auðvitað ekki góð. En liðið tapaði nýlega fyrir Hannover á útivelli, 28-27, og spiluðu vel í þeim leik,“ sagði hann.

Toppbaráttan í deildinni er hörð. Löwen er tveimur stigum á eftir toppliði Kiel en aðeins einu á undan Flensburg. Hamburg er svo þremur stigum á eftir Löwen en á leik til góða.

Meistaratitillinn er ekki aðeins að veði þar sem að sú breyting var gerð nýlega að aðeins þrjú efstu liðin öðlast þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu í stað fjögurra eins og undanfarin ár.

„Við höfum ekki efni á því að misstíga okkur,“ sagði Guðmundur og lagði mikla áherslu á að leikmenn væri ekki með hugann við síðari leikinn gegn Kielce í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á mánudaginn.

„Við megum ekki hugsa um þann leik og einbeita okkur að því að spila vel í þessum leik. Það er það verkefni sem er brýnast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×