Viðskipti erlent

Facebook kaupir Oculus Rift á 230 milljarða króna

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Oculus Rift,sýndarveruleikatæki Oculus VR gerir tölvuleikjaspilurum kleift að lifa sig inn í tölvuleiki.
Oculus Rift,sýndarveruleikatæki Oculus VR gerir tölvuleikjaspilurum kleift að lifa sig inn í tölvuleiki. Vísir/AFP
Samfélagsmiðlarisinn Facebook tilkynnti kaup á fyrirtækinu Oculus í dag. Kaupin hljóða upp á tvo milljarða bandaríkjadala, eða rúma 230 milljarða íslenskra króna. 

Oculus VR er sprotafyrirtæki sem hefur þróað sýndarveruleikagleraugu sem kallast Oculus Rift. Gleraugun hafa vakið mikla athygli meðal fjárfesta og forritara, þar á meðal Facebook.

Í yfirlýsingu Facebook segir að þótt notagildi sýndarveruleikans sé aðallega bundið við tölvuleiki séu mörg fyrirtæki að skoða notkun tækninnar í samskiptum, margmiðlun, afþreyingu og menntun svo eitthvað sé nefnt. Því sé sýndarveruleiki líklegur til að spila stórt hlutverk í samfélags- og samskiptamiðlum framtíðarinnar.

"Hreyfanleg tækni er nútíminn, og nú undirbúum við okkur einnig fyrir tækni framtíðarinnar," sagði Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook. 

"Við erum spennt fyrir því að vinna með Mark og Facebook-teyminu, og skila af okkur bestu sýndarveruleikatækni heims," sagði Brendan Iribe, meðstofnandi og forstjóri Oculus VR. 

Áætlað er að viðskiptin gangi í gegn í öðrum ársfjórðungi 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×