Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - HK 30-21 | Stjarnan komin í 1-0

Stefán Árni Pálsson í Mýrinni skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/valli
Stjarnan vann öruggan sigur á HK, 30-21, í 8-liða úrlitum Olís-deildar kvenna í handknattleik og var sigur þeirra aldrei í hættu. Florentina Stanciu var mögnuð í liðu Stjörnunnar og varði 20 skot en hún lék ekki síðustu þrettán mínútur leiksins. Sólveig Lára Kjærnested gerði sex mörk fyrir heimamenn.

Jafnræði var á með liðunum fyrstu mínútur leiksins en í stöðunni 3-2 fyrir Stjörnuna stungu heimamenn af.

Staðan var því næst allt í einu orðin 7-2 og sáu HK-ingar aldrei til sólar út fyrri hálfleikinn. Florentina Stanciu var ótrúleg í markinu hjá Stjörnunni fyrstu 30 mínútur leiksins og varði 13 bolta, mögnuð frammistaða alveg hreint.

Þórhildur Gunnarsdóttir hafði gert fjögur mörk fyrir Stjörnuna í hálfleik sem leiddu leikinn 17-8 eftir fyrri hálfleikinn. Leikurinn var á þeim tíma í raun búinn.

Stjarnan hélt áfram að leiða í síðari hálfleiknum en HK-ingar höfðu bætt margt í sínum leik.

Gestirnir voru farnir að keyra upp völlinn og freista þess að skora úr hörðum upphlaupum. Staðan var 21-13 þegar síðari hálfleikurinn var hálfnaður. Stjörnustúlkur hleyptu samt aldrei gestunum inn í leikinn og endaði hann með öruggum sigri þeirra bláu, 30-21.

Liðið er því komið í 1-0 í einvíginu en vinna þarf tvö leiki til að komast áfram í undanúrslitin. Liðin mætast á ný í Digranesinu á miðvikudagskvöldið.



Skúli: Einbeiting og vilji til staðar hjá stelpunum
vísir/valli
„Ég er mjög ánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur og við erum að spila virkilega góða vörn í kvöld," segir Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn í kvöld.

„Einbeiting og vilji var svo sannarlega til staðar í kvöld og er ég mjög ánægður með það."

„Við vorum að missa Hönnu (G. Stefánsdóttur) og Rakel (Bragadóttir) duttu úr hópnum fyrr í vetur en mér finnst tóninn í stelpunum vera að við ætlum okkur langt þó hópurinn sé að þynnast."

„HK er bara með þannig lið að við verðum að mæta alveg klárar í næsta leik og megum ekkert gefa eftir. Það er samt markmiðið að klára þetta einvígi í næsta leik, enda förum við í alla leiki til að vinna."

Hægt er að sjá viðtalið með því að smella hér.

Hilmar: Þurfum að laga allt fyrir næsta leik
„Við vorum engan veginn tilbúnar í þetta og það sást alveg frá fyrstu mínútu,“ segir Hilmar Guðlaugsson, þjálfari HK, eftir leikinn í kvöld.

„Við vorum bara númeri og litla og margt sem við getum lagað fyrir næsta leik, eiginlega bara allt sem við þurfum að laga.“

„Stelpurnar gerðu ekki það sem við höfðum lagt upp með sem var að vera skynsamar og rólegar í okkar aðgerðum. Við mætum dýrvitlausar í næsta leik, það er ekki annað í boði, við erum ekki tilbúnar til að fara í sumarfrí.“

Hægt er að sjá viðtalið við Hilmar með því að ýta hér.

vísir/valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×