Handbolti

Ólafur fór hamförum í sigri Kristianstad í oddaleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur skoraði 12 mörk í kvöld.
Ólafur skoraði 12 mörk í kvöld. Vísir/EPA
Ólafur Andrés Guðmundsson og félagar hans í Kristianstad eru komnir áfram í undanúrslit sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir stórsigur á Hammarby, 29-18, í oddaleik liðanna í 8 liða úrslitum í kvöld.

Hammarby hefur staðið sig frábærlega í rimmunni gegn Kristianstad sem hafnaði í 2. sæti deildarinnar en heimamenn voru einfaldlega sterkari í kvöld og unnu einvígið, 3-2.

Munurinn var ekki nema tvö mörk í hálfleik, 13-11, en í þeim síðari stakk Kristianstad af og átti Ólafur stóran þátt í sigrinum.

Landsliðsskyttan skoraði hvorki meira né minna en tólf mörk í kvöld og var langmarkahæstur á vellinum. Honum héldu engin bönd og má segja hann hafi skotið Kristianstad áfram.

Íslendingaliðin Guif og Kristianstad enduðu í tveimur efstu sætum sænsku úrvalsdeildarinnar og þau eru bæði komin í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×