Handbolti

Þrettán íslensk mörk og Kiel í úrslit

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron skoraði mikið og lék góða vörn gegn Laszlo Nagy
Aron skoraði mikið og lék góða vörn gegn Laszlo Nagy vísir/getty
Kiel er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta í þriðja sinn á fimm árum eftir 29-26 sigur á ungversku meisturunum í Veszprém í dag.

Leikurinn var jafn og spennandi allan leikinn en Kiel var sterkara í seinni hálfleik eftir mjög jafnan fyrri hálfleik.

Það var mikill hraði í leiknum enda ekki við öðru að búast. Bæði lið leika öfluga vörn og keyrðu góð hraðaupphlaup við hvert tækifæri.

Sviptingarnar voru fyrir vikið miklar í leiknum og þriggja marka sveiflur sáust ítrekað á skömmum tíma en alltaf var spenna í leiknum.

Ungverjarnir voru lengst af yfir í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var þó jöfn 13-13.

Kiel byrjaði betur í seinni hálfleik og náði frumkvæðinu í leiknum. Innkoma Svíans Andreas Palicka í mark Kiel var frábær og þegar Renato Sulic fékk beint rautt spjald þegar rúmlega stundarfjórðungur var eftir af leiknum var verkefnið orðið erfitt fyrir Veszprém þó aðeins hafi munaði marki á liðunum.

Kiel náði fjögurra marka forystu þegar rúmlega sjö mínútur voru eftir af leiknum. Veszprém minnkaði muninn aðeins í þrjú mörk úr því og því vann Kiel að lokum næsta öruggan sigur.

Kiel hefur tvisvar unnið keppnina undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og er nú komið í þriðja sinn í úrslit undir hans stjórn.

Íslendingarnir í liðinu áttu báðir mjög góðan leik. Aron Pálmarsson var markahæstur með 7 mörk og Guðjón Valur Sigurðsson kom næstur með 6. Filip Jicha skoraði 4 mörk fyrir Kiel en Rene Toft Hansen fór fyrir liðinu í vörninni og var frábær.

Hjá Veszprém var Momir Ilic markahæstur með 6 mörk og Cristian Ugalde skoraði 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×