Handbolti

Veszprém stendur í vegi fyrir Kiel

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Laszlo Nagy er stórstjarna Veszprém
Laszlo Nagy er stórstjarna Veszprém vísir/afp
Íslendingaliðið Kiel verður í eldlínunni í dag í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Kiel mæti ungversku meisturunum í Veszprém í fyrri leik dagsins í Köln klukkan 13:15 í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Kiel hefur tvisvar unnið Meistaradeild Evrópu undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, árin 2010 og 2012. Í fyrra varð Kiel í fjórða sæti en liðið hefur alls unnið keppnina þrisvar.

Ungverjarnir í Veszprém hafa aldrei unnið þennan stærsta titil Evrópu og aðeins einu sinni leikið til úrslita. Það var árið 2002 þegar liðið tapaði fyrir Magdeburg en þá var leikið heima og að heiman.

Þetta er í fimmta sinn sem úrslitin ráðast með glæsilegri úrslitahelgi, Final4, en ávallt er leikið í Laxness Arena í Köln. Höllin tekur tæplega 18.000 áhorfendur.

Aron Pálmarsson var í liði Kiel sem vann bæði 2010 og 2012 og verður í lykil hlutverki í dag og á morgun eins og Guðjón Valur Sigurðsson sem vonast til að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn.

Í vegi fyrir íslensku landsliðsmönnunum stendur ungverska stórliðið Veszprém. Lið sem er í sérflokki í heimalandinu.

Frá árinu 1988 hefur liðið ekki hafnað neðar en í öðru sæti í ungversku deildinni en liðið hefur unnið titilinn 20 sinnum á síðustu 23 árum í heimalandinu. Liðið hefur unnið ungverska titilinn sjö ár í röð og tvöfalt síðustu sex tímabilin.

Núna horfa forráðamenn félagsins til Evrópu. Liðið tvisvar unnið Evrópubikarinn, 1992 og 2008, en sá stóri bíður.

Liðið er mjög vel mannað. Momir Ilic gekk til liðsins síðasta sumar frá Kiel og Laszlo Nagy er í hinni skyttunni, hægra megin, en valinn maður er í hverju rúmi í liðinu.

Christian Zeitz leikmaður Kiel gengur til liðs við Veszprém í sumar auk þess sem Aron Pálmarsson hefur ítrekað verið orðaður við liðið. Það segir sitt um metnað liðsins og stöðuna á því að hin liðin sem Aron er orðaður við eru PSG og Barcelona.

Kiel þarf að hitta á sinn besta leik til að komast í úrslitaleikinn en öll úrslitahelgin er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Flensburg og Barcelona. Sá leikur hefst klukkan 16:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×