Handbolti

Guðmundur sefur illa á nóttunni

Guðmundur svekktur eftir að hafa misst af titlinum.
Guðmundur svekktur eftir að hafa misst af titlinum. vísir/getty
Guðmundur Þórður Guðmundsson segist eiga erfitt með að sætta sig við að hafa misst af þýska meistaratitlinum í hendur Kiel á lokadegi þýsku deildarinnar.

Lið Guðmundar, Rhein-Necar Löwen, fór inn í lokaumferðina með sjö marka forskot á Kiel en missti það niður og tapaði titlinum að lokum með tveim mörkum.

"Ef ég á að vera heiðarlegur þá hugsa ég enn mikið um hvernig við fórum að því að missa af titlinum. Ég sé fyrir mér augnablik úr leiknum gegn Gummersbach og frá tímabilinu. Ég sef illa á nóttunni og spyr sjálfan mig oft að því hvar mörkin séu sem kostuðu okkur meistaratitilinn," segir Guðmundur í viðtali á heimasíðu Löwen.

Hann segist samt ekki geta kennt neinum um. Liðið hafi staðið sig frábærlega og þetta væri langbesta tímabil í sögu félagsins.

"Þetta lið átti skilið að vinna titil í ár því við stóðum okkur nánast fullkomlega. Það var samt of lítið að vinna Gummersbach með aðeins fimm mörkum. Ég held að átta eða níu mörk hafi ekki verið nóg. Kiel vissi alltaf hvernig staðan var hjá okkur og hafði alltaf ákveðið frumkvæði þar sem þeirra leikur fór seinna af stað. Af hverju veit ég ekki."

Blaðamaður Löwen spyr Guðmund að því hvort hann hafi talað við Dag Sigurðsson eða einhvern hjá Fuchse Berlin sem tapaði með 14 marka mun gegn Kiel.

"Nei, en ég er vonsvikinn með þeirra frammistöðu. Við erum að tala um bikarmeistarana og liðið í fimmta sæti sem tapar svona illa gegn Kiel."

Guðmundur var kosinn besti þjálfari deildarinnar og leikmenn hans - Andy Schmid og Niklas Landin - voru valdir besti leikmaður deildarinnar og besti markvörðurinn.

"Miðað við þessa frammistöðu hefði verið eðlilegt að við hefðum unnið titilinn. Ég er mjög stoltur af liðinu og þá sérstaklega hvernig handbolta liðið spilaði. Strákarnir gáfu allt sem þeir áttu fram á lokamínútu. Ég hefði aldrei verið kosinn þjálfari ársins ef þessir drengir hefðu ekki verið svona magnaðir. Það var ekki erfitt að þjálfa þetta lið."


Tengdar fréttir

Guðmundur: Það var grátið á laugardaginn

Guðmundur Guðmundsson, fráfarandi þjálfari Rhein-Neckar Löwen, segir að það hefði verið dapurt að missa af meistaratitlinum í Þýskalandi vegna markatölu.

Guðmundur: Einkennilegt fyrirkomulag

Rhein-Neckar Löwen missti af þýska meistaratitlinum í handbolta eftir dramatíska lokaumferð í gær. Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen, er ekki sáttur með að markatala skuli ráða úrslitum, verði lið jöfn að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×