Körfubolti

Hörður Axel aftur til Þýskalands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson í landsleik.
Hörður Axel Vilhjálmsson í landsleik. Vísir/Daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfubolta, er genginn aftur í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins Mitteldeutscher BC en frá þessu er greint á karfan.is.

Hörður lék með CB Valladolid á Spáni í vetur en liðið féll úr deildinni. Það vann aðeins þrjá leiki af 34 og gekk mikið á hjá liðinu.

„Það er sami þjálfari og ég er að labba aftur inn í það sama og ég var að fara frá. Þeir vissu á sínum tíma að það væri kominn áhugi á mér frá öðrum liðum en ég er virkilega ánægður með þessa niðurstöðu og við bæði hjónin. Við erum að fara í eitthvað sem við þekkjum,“ segir Hörður við karfan.is.

Hörður Axel gekk í raðir MBC árið 2011 frá Keflavík og hjálpaði liðinu að komast upp um deild. Það hélt sæti sínu í úrvalsdeildinni í fyrstu tilraun með Hörð sem lykilmann og á nýliðnu tímabili var það hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina.

Þessi kraftmikli Fjölnismaður staðfestir að hann verði með landsliðinu í undankeppni EM 2015 í sumar þar sem Ísland mætir Bosníu og Bretlandi.

„Ég verð með landsliðinu svo lengi sem maður kemst í hópinn en ég samdi einmitt við Mitteldeutscher um að landsliðið væri inni í pakkanum,“ segir Hörður Axel Vilhjálmsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×