Handbolti

Atli Ævar kemur í stað Heimis Óla hjá Guif

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Atli Ævar varð Íslandsmeistari með HK 2011.
Atli Ævar varð Íslandsmeistari með HK 2011. Vísir/Stefán
Kristján Andrésson, þjálfari Guif frá Eskilstuna sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta, hefur fundið manninn sem leysa á Heimi Óla Heimisson af hólmi hjá liðinu.

Atli Ævar Ingólfsson, fyrrverandi Íslandsmeistari með HK, er genginn í raðir sænska liðsins frá Nordsjælland í Danmörku en frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta hefur verið í farvegi í nokkrar vikur. Ég er búinn að kíkja á aðstæður úti svo ég hef kannað málið vel. Það komst á hreint fljótlega eftir að við féllum að ég mundi fara. Þá fór maður að horfa í kringum sig og á þá möguleika sem voru í stöðunni til að spila á hærra plani,“ segir Atli Ævar við Andra Yrkil Valsson í Morgunblaðinu um vistaskiptin.

Með Guif leikur einnig landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson en línumaðurinn Heimir Óli Heimisson, sem verið hefur í herbúðum liðsins í tvö ár, yfirgefur félagið í sumar.

Guif varð deildarmeistari í Svíþjóð á tímabilinu en tapaði fyrir Alingsås, 3-1, í undanúrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×