Handbolti

Aron ekki með gegn Bosníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Aron Pálmarsson verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Bosníu í Laugardalshöllinni á morgun.

Þetta staðfesti Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari, í samtali við Vísi í dag.

„Þetta kom að stórum hluta í ljós á æfingunni í gær. Við fengum það svo staðfest í dag að hann væri einfaldlega ekki nógu góður,“ sagði Aron við Vísi.

„Hann er búinn að vera á annarri löppinni í allan vetur og það fór svo illa í hann að spila tvo leiki á tveimur dögum í úrslitum Meistaradeildarinnar. Hann fær verk í hnéð við lítið álag.“

„En við höfum undirbúið okkur alla vikuna eins og að hann yrði ekki með. Við litum á að það yrði bara bónus ef það tækist,“ bætir Aron við.

Bosnía vann fyrri leikinn ytra með eins marks mun og landsliðsþjálfarinn segir tilfinninguna góða fyrir leiknum á morgun.

„Æfingarnar hafa gengið vel. Þetta verður síðasti leikur tímabilsins hjá okkur og við erum staðráðnir í að ljúka því með sigri og að tryggja okkur inn á HM í Katar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×