Viðskipti erlent

Ferðalög til Bandaríkjanna í uppnámi vegna bilunar í tölvukerfi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Mörg ferðalög eru í uppnámi vegna tölvubilunarinnar.
Mörg ferðalög eru í uppnámi vegna tölvubilunarinnar. Vísir/Getty
Bilun í tölvukerfi innanríkisráðuneytisins í Bandaríkjunum hefur haft áhrif á mikinn fjölda ferðalanga sem eru á leið til landsins.

Starfsmenn innanríkisráðuneytisins í Bandaríkjunum tóku fyrst eftir biluninni þann 19. júlí og lá tölvukerfi, sem notað er í að vinna úr gögnum þeirra sem eru á leið til landsins, niðri í fjóra daga. Enn hefur ekki tekist að laga kerfið að fullu og telja erlendir fjölmiðlar að þetta geti haft áhrif á milljónir manns sem hafi ætlað sér að ferðast til Bandaríkjanna.

Jontahan Ginsburg, lögfræðingur sem sérhæfir sig í inflytjendamálum og vegabréfsáritunum fyrir ferðalanga, sagði í samtali við Wall Street Journal í gær að þetta sé umfangsmesta bilun sögunnar í þessum málaflokki. „Ef kerfið hefði legið niðri í einn dag hefði það skapað mikil vandræði. En það lá niðri í fjóra daga. Þetta hægir ótrúlega á öllu," segir hann og bendir á að mikil vinna fari fram daglega, þegar allt er í eðlilegu ástandi. Því verði það mikið verk að greiða úr þeirri flækju sem nú hefur skapast.

Ginsburg sagði frá því að viðskiptavinir hans frá Asíu og Evrópu biðu eftir því að greitt yrði úr flækjunni.

Í gær sendi innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna frá sér yfirlýsingu. Í henni kom fram að ekki væri talið að tölvuþrjótar hafi átt hlut að máli. Talið er að bilunin hafi komið til vegna þess að vélbúnaður tölvukerfisins hafi ekki ráðið við nýja hugbúnaðaruppfærslu.

Einnig kom fram í yfirlýsingunni að bilunin bitni ekki á ríkisborgurum tiltekinna landa, eins og einhverjir töldu í fyrstu.

Fjölmiðlar í fjölmörgum löndum hafa sagt frá fólki víðsvegar um heiminn sem kemst ekki til Bandaríkjanna. Meðal þeirra sem bíða enn eftir að komast inn í landið eru Karl-Heinz Rummenigge, forseti Bayern München og fyrrum landsliðsmaður Vestur-Þýskalands og Rafael Ramirez, erindreki ríkisstjórnar Venesúela. Ramirez átti að eiga fund með fjármagnseigendum í gær. Tilefni fundarins var lánveiting til Venesúela, en mikill gjaldeyrisskortur er í landinu. Einnig hafa margir Indverjar sem voru á leið í starfsviðtöl í hátæknigeiranum þurft frá að hverfa vegna bilunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×