Viðskipti erlent

Microsoft segir upp 1.050 í Finnlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls starfa um 127 þúsund manns hjá fyrirtækinu víðs vegar um heim.
Alls starfa um 127 þúsund manns hjá fyrirtækinu víðs vegar um heim. V'isir/AFP
Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft tilkynnti í morgun að samráðsfundum með fulltrúum atvinnurekanda í Finnlandi væri lokið og staðfesti jafnframt að allt að 1.050 starfsmönnum fyrirtækisins yrði sagt upp í landinu.

Microsoft keypti finnska fjarskiptafyrirtækið Nokia í vor og voru um 25 þúsund fyrrum starfsmenn Nokia sem gengu þá til liðs við Microsoft.

Í frétt YLE segir að tilkynnt hafi verið að til standi að leggja niður rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins í Oulu í norðvesturhluta landsins, þar sem um fimm hundruð manns eru við störf.

Microsoft tilkynnti fyrr í sumar að allt að 18 þúsund starfsmönnum yrði sagt upp næsta árið. Uppsagnirnar eru þær mestu í 39 ára sögu fyrirtækisins. Flestir þeirra sem verður sagt upp, eða um 12.500, unnu áður hjá símafyrirtækinu Nokia.

Alls starfa um 127 þúsund manns hjá fyrirtækinu víðs vegar um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×