Sport

Mega ekki bera Hijab-slæðuna og hættu því keppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kvennalið Katar í körfubolta gengur af velli gegn Mongólíu.
Kvennalið Katar í körfubolta gengur af velli gegn Mongólíu. vísir/afp
Kvennalið Katar í körfubolta dró sig úr keppni á Asíuleikunum sem nú standa yfir í Suður-Kóreu eftir að leikmönnum þess var meinað að klæðast Hijab á meðan leik stendur, en það er slæðan sem múslimakonur bera á höfðinu.

Leikmenn liðsins neituðu að fjarlægja þær fyrir leik liðsins gegn Mongólíu á dögunum og gengu þær því af velli og gáfu leikinn.

Reglur Alþjóðakörfuknattleikssambandsins meina leikmönnum að vera með nokkurskonar höfuðfat á meðan leik stendur og þar sem ekki er á dagskrá að breyta reglunum ákvað kvennalið Katar að draga sig úr keppni.

Í öðrum íþróttagreinum á Asíuleikunum mega konur bera Hijab, en allar fjórar konurnar frá Katar sem unnu til bronsverðlauna í róðrakeppni í fjórmenningi í gær báru Hijab.

Körfubolti er ein af fáum greinum sem eftir er sem ekki má leika með Hijab á höfðinu, en FIBA sagðist fyrr í mánuðinum vera að ræða málefnið og mögulegar breytingar, að því fram kemur í frétt BBC.

Eftir að hafa gefið leikinn gegn Mongólíu sagði AmalMohamed, leikmaður Katar, að liðinu hefði verið lofað að það mætti bera Hijab í keppni á Asíuleikunum.

„Okkur var sagt að við mættum æfa og spila með Hijab. Við munum ekki mæta til leiks aftur nema reglunum verði breytt,“ sagði AmalMohamed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×