Viðskipti erlent

Stærsta farþegavél heims flýgur nú lengst

Atli Ísleifsson skrifar
Airbus A380 vél ástralska flugfélagsins Qantas.
Airbus A380 vél ástralska flugfélagsins Qantas. Vísir/AFP
Stærsta farþegaþota heims flýgur nú lengstu áætlunarflugleið heims. Airbus A380 vél ástralska flugfélagsins Qantas fór í fyrsta flug sitt á leiðinni í gær þar sem flogið er 13.800 kílómetra leið milli Sydney í Ástralíu og bandarísku borgarinnar Dallas.

Í frétt Mashable kemur fram að flogið verði sex sinnum í viku og mega farþegar búast við að flugferðin taki um 15 klukkustundir. Boeing 747-400ER vél Qantas flaug áður á leiðinni, en þar sem Airbus-vélin getur flugfélagið flutt 10 prósent fleiri farþega á leiðinni.

Qantas flaug fyrst milli Sydney og Dallas árið 2011, en búist er við að nýja vélin geti betur höndlað leiðina vegna betri nýtingar eldsneytis.

Delta býður upp á næstlengstu áætlunarflugleið heims þar sem flogið er 13.582 kílómetra leið milli Jóhannesarborgar í Suður-Afríku og Atlanta í Bandaríkjunum. Í þriðja sæti er svo 13.420 kílómetra áætlunarflugleið Emirates milli Dubai og Los Angeles.

15.343 kílómetra flugleið Singapore Airlines milli Singapúr og New York var lengsta áætlunarflugleið heims allt til nóvember á síðasta ári þegar hætt var að fljúga milli borganna. Tók sú flugferð um 19 klukkustundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×