Körfubolti

Fjórir sigrar í röð hjá Herði Axel og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson sneri aftur til MBC frá Valladolid fyrir tímabilið.
Hörður Axel Vilhjálmsson sneri aftur til MBC frá Valladolid fyrir tímabilið. vísir/vilhelm
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar hans í Mitteldeutscher BC eru á miklum skriði í þýsku 1. deildinni í körfubolta.

MBC tapaði í fyrstu umferð fyrir stórliði Bayern München, en vann í kvöld fjórða sigurinn í röð þegar liðið lagði Phoenix Hagen, 80-79, í spennuleik á heimavelli.

Gestirnir réðu lögum og lofum framan af og voru 43-29 yfir í hálfleik, en heimamenn sóttu í sig veðrið í þeim síðri og tryggðu sér sigurinn á vítalínunni á síðustu sekúndu leiksins.

Hörður Axel kom ekki mikið við sögu í kvöld. Hann spilaði rétt tæpar sjö mínútur án þess að skora stig eða taka frákast. Hann reyndi eitt tveggja stiga skot sem geigaði.

MBC er í toppbaráttunni í Bundesligunni með átta stig eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×