Handbolti

Sigrar hjá liðum Dags og Geirs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Sigurðsson og Berlínarrefirnir hans eru í 5. sæti Bundesligunnar.
Dagur Sigurðsson og Berlínarrefirnir hans eru í 5. sæti Bundesligunnar. Vísir/Getty
Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin unnu sex marka sigur, 30-24, á TSG Lu-Friesenheim í þýsku Bundesligunni í handbolta í dag. Refirnir voru einu marki yfir í leikhléi, 13-12.

Sænski hornamaðurinn Fredrik Petersen skoraði níu mörk fyrir Füchse, en gamla kempan Iker Romero kom næstur með átta mörk. Erik Schmidt skoraði mest fyrir Friesenheim, eða sex mörk.

Geir Sveinsson stýrði Magdeburg til fjögurra marka sigurs, 37-33, á Melsungen á heimavelli. Magdeburg er í 6. sæti deildarinnar með 15 stig, einu minna en Füsche Berlin sem er sæti ofar.

Andreas Rojewski var markahæstur í liði Magdeburg með átta mörk, en Fabian van Olphen og Austurríkismaðurinn Robert Weber komu næstir með fimm mörk hvor. Michael Allendorf skoraði níu mörk fyrir Melsungen.

Rúnar Kárason, sem er að koma til baka eftir erfið meiðsli, skoraði eitt mark þegar Hannover-Burgdorf gerði jafntefli við Gummersbach á útivelli. Ólafur Guðmundsson lék ekki með Hannover vegna meiðsla.

Gunnar Steinn Jónsson komst ekki blað hjá Gummersbach sem er með 12 stig í 9. sæti, einu minna en Hannover.

Fyrr í dag bar Göppingen sigurorð af Hamburg með 26 mörkum gegn 23. Göppingen er í 3. sæti deildarinnar, en Hamburg í því 7.

Íslendingaliðið Aue var einnig á ferðinni í B-deildinni þar sem liðið vann Nordhorn-Lingen með tveggja marka mun, 25-23. Árni Þór Sigtryggsson skoraði þrjú mörk fyrir Aue og Hörður Sigþórsson eitt. Bjarki Már Gunnarsson stóð fyrir sínu í vörn liðsins og þá varði Sveinbjörn Pétursson 15 skot í marki. Rúnar Sigtryggson er þjálfari Aue.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×