Handbolti

Arnór markahæstur í tapi gegn Kiel | Löwen vann nauman sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór skilaði sínu í kvöld.
Arnór skilaði sínu í kvöld.
Rhein-Neckar Löwen og Kiel eru efst og jöfn á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, en bæði lið unnu sína leiki í kvöld.

Kiel hafði betur gegn Bergischer í Íslendingaslag, en lokatölur urðu 20-32, þýsku meisturunum í vil.

Bergischer hélt í við Kiel fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrri hálfleik skildu leiðir. Kiel leiddi með fimm mörkum í leikhléi, 11-16, og lærisveinar Alfreðs Gíslasonar juku muninn smám saman í seinni hálfleik og unnu að lokum tólf marka sigur.

Marko Vujin var markahæstur í liði Kiel með tíu mörk, en sænski hornamaðurinn Niclas Ekberg kom næstur með sex mörk. Aron Pálmarsson lék ekki með Þýskalandsmeisturunum vegna meiðsla.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur hjá Bergischer en hann skoraði fimm mörk úr hægra horninu. Björgvin Páll Gústavsson varði einungis tvö skot í marki Bergischer.

Rhein-Neckar Löwen vann nauman eins marks sigur, 35-34, á Lemgo á heimavelli sínum í Mannheim. Staðan var jöfn í hálfleik, 16-16.

Uwe Gensheimer var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Ljónunum með 11 mörk, en Kim Ekdahl du Rietz kom næstur með tíu. Alexander Petersson hafði hægt um sig í sókninni og skoraði aðeins eitt mark. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað. Timm Schneider var markahæstur hjá Lemgo með átta mörk.

Sigurbergur Sveinsson var ekki á meðal markaskorara þegar Erlengan bar sigurorð af Wetzlar með tveggja marka mun, 22-20.

Þá unnu Evrópumeistarar Flensburg öruggan níu marka sigur á Minden á útivelli, 22-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×