Handbolti

Arnór Atla og Snorri Steinn mætast í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason.
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason. Vísir/Stefán
Það stutt á milli leikja hjá íslensku landsliðsmönnunum Snorra Stein Guðjónssyni og Arnóri Atlasyni sem voru með íslenska landsliðinu í Svartfjallalandi á sunnudaginn.

Lið þeirra spila í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og svo skemmtilega vill til að Snorri Steinn og félagar í Sélestat AHB eru þá að koma í heimsókn til Arnórs og félaga í Saint Raphaël. Leikurinn hefst klukkan sjö að íslenskum tíma.

Saint Raphaël er í 5. sæti frönsku deildarinnar og sex sætum ofar en Sélestat í töflunni. Snorri Steinn og félagar í Sélestat-liðinu hafa aðeins náð að vinna einn af síðustu sex leikjum sínum. Eina tap Saint Raphaël í síðustu sjö leikjum kom á móti toppliði Montpellier.

Snorri Steinn Guðjónsson er markahæsti leikmaður frönsku deildarinnar með 57 mörk eða 8,1 mark að meðaltali í leik. Arnór Atlason hefur skorað 17 mörk eða 2,4 mörk í leik.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og félagar í Nimes taka á móti Toulouse í kvöld en Róbert Gunnarsson og liðsfélagar hans í Paris Saint-Germain spila ekki fyrr en annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×