Handbolti

Arnór markahæsti Íslendingurinn í Bundesligunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu.
Arnór hefur verið iðinn við kolann á tímabilinu. Facebook-síða Bergischer
Hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson, sem leikur með Bergischer HC, hefur byrjað tímabilið í þýsku Bundesligunni í handbolta mjög vel.

Arnór, sem er 27 ára, er markahæsti leikmaður Bergischer það sem af er tímabili, en hann er búinn að skora 59 mörk í tólf leikjum, eða 4,9 mörk að meðaltali í leik.

Arnór er nú þegar búinn að skora átta mörkum meira en hann gerði í fyrra, þegar hann skoraði 51 mark í 21 leik, eða 2,4 mörk að meðaltali í leik.

Arnór er markahæsti Íslendingurinn í Bundesligunni til þessa, en Alexander Petersson kemur næstur með 50 mörk. Þá hefur Sigurbergur Sveinsson skorað 33 mörk og Aron Pálmarsson 23 mörk.

Arnór er einnig ofarlega á lista yfir markahæstu leikmenn Bundesligunnar á tímabilinu. Akureyringurinn situr í 11. sæti markalistans með jafn mörg mörk og Torge Johannsen hjá Hannover-Burgdorf.

Annar örvhentur hornamaður, Robert Weber hjá Magdeburg, trónir á toppi markalistans með 95 mörk í tólf leikjum, eða 7,9 mörk að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×