Körfubolti

Jón Arnór á undan áætlun og gæti spilað annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson, íslenski landsliðsmaðurinn hjá spænska stórliðinu Unicaja Malaga, er möguleika á leið aftur inn á körfuboltavöllinn annað kvöld þegar liðið mætir króatíska liðinu Cedevita Zagreb í Euroleague. Þetta kemur fram á karfan.is.

Jón Arnór meiddist á nára í leik á móti Limoges 31. október síðastliðinn og hann hefur ekki verið með Unicaja Malaga liðinu í síðustu fimm leikjum þar af voru tveir þeirra í Euroleague .

„Ég vonast eftir að fá einhverjar nokkrar mínútur en ég er byrjaður að æfa vel.  Ég finn ekkert fyrir þessu en slík meiðsli þarf að fara varlega með og ekki fara of geyst af stað." sagði Jón Arnór í samtali við Karfan.is.

Unicaja Malaga tapaði sínum fyrstu leikjum á tímabilinu eftir að liðið missti íslenska landsliðsbakvörðinn í meiðsli en liðið hefur tapað þremur af fimm leikjum án hans.

„Þetta hefur gengið mjög vel allt saman og tvær vikur er ekki slæmt. Það var búist við lengri tíma en við förum varlega í þetta," sagði Jón Arnór ennfremur í viðtalinu við Skúla Sigurðsson á karfan.is en þegar fyrst fréttist af meiðslum hans var búist við að Jón Arnór yrði frá í í þrjár til fjórar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×