Handbolti

Fá Þjóðverjar að sjá HM á netinu?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar eru ríkjandi heimsmeistarar.
Spánverjar eru ríkjandi heimsmeistarar. Vísir/Getty
Forráðamenn þýska handknattleikssambandsins eru enn vongóðir um að þýskir handboltaáhugamenn fái að sjá beinar útsendingar frá HM í Katar í næsta mánuði.

Fyrr í vikunni var greint frá því að þýsku ríkisstöðvarnar ARD og ZDF hefðu hætt viðræðum við rétthafa keppninnar, beIn Sports en það er dótturfyrirtæki Al-Jazeera sjónvarpsrisans í Katar.

„Það er ekkert útilokað enn,“ sagði Frank Bohmann, framkvæmdarstjóri þýsku úrvalsdeildarinnar sem á mikilla hagsmuna að gæta í málinu.

Vandamálið í viðræðum þýsku ríkisstöðvanna við beIn Sports snerist ekki um peninga. Rétthafinn hafði áhyggjur af því að stöðvarnar eru sendar út í gegnum gervihnött til annarra landa þar sem hægt er að horfa á þær frítt. Forráðamönnum beIN Sports töldu að það myndi rýra verðmæti sjónvarpsréttsins í öðrum löndum.

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, hefur einnig látið sig málið varða. „Við höfum verið í stöðugu sambandi við þýska handknattleikssambandið og beIn vegna málsins og við vonum að það verði hægt að finna lausn,“ sagði Patric Strub, talsmaður IHF.

Bohmann útilokar ekki að Sport1-sjónvarpsstöðin bjóði í réttinn en áður hefur komið fram að ólíklegt þyki að það sé hægt að koma því í kring nú þegar svo stutt er í mótið. Það sé hins vegar ekki vandamál fyrir minni miðla, líkt og vefsjónvarpsstöðina Sportdeutschland.tv. Forráðamenn þess hafa þegar hafið viðræður við beIN um kaup á réttinum.

Eins og margt oft hefur komið fram var Þýskalandi hleypt inn á HM eftir að liðið féll úr leik í undankeppni mótsins. Sæti Ástralíu var fórnað fyrir Þjóðverja en margir töldu að það væri lykilatriði fyrir handboltaíþróttina að mótið væri sýnt á þýskum sjónvarpsmarkaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×