Handbolti

Lindgren segir fréttaflutning í Þýskalandi rangar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Ola Lindgren segir það rangt sem fullyrt er í þýsku blöðunum Bild og Berliner Zeitung að hann muni taka við þjálfun Füchse Berlin næsta sumar.

Samkvæmt heimildum Vísis liggur fyrir að Erlingur Richardsson verði eftirmaður Dags Sigurðssonar hjá liðinu og að hann hafi samþykkt þriggja ára samning við félagið.

Lindgren er í dag annar þjálfara sænska landsliðsins sem og þjálfari Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni. Hann sagði í samtali við Kristianstadsbladet að þetta væri einfaldlega rangt.

„Ég get bara neitað þessu. Ég las þetta líka en þetta er ekki satt,“ sagði Lindgren. „Það hefur verið rætt við mig eins og marga þjálfara. Það sem okkar fór á milli er trúnaðarmál.“

Hann segir þó að hann hafi ekki átt í formlegum viðræðum við félagið. „Nei, við höfum rætt saman. Það kom almenn fyrirspurn um hvernig mín samningsmál stæðu og hvort ég hefði áhuga á starfinu.“

„Fréttaflutningurinn kom mér mjög á óvart. En að sama skapi er þetta frétt úr Bild sem er ekki með áreiðanlegustu fréttirnar. Ég las að ég hafi átt að vera á einhverjum veitingastað í Berlín og það er bara alls ekki satt.“

Hann segist gera ráð fyrir því að vera áfram hjá Kristianstad. „Það er takmarkið mitt. En ef Kiel hringir á morgun þá munu aðstæður breytast. En það liggur ekkert annað fyrir hjá mér en að halda áfram að þjálfa Kristianstad.“

Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, sagði í samtali við Handball World að það væri ekkert nýtt að frétta af málinu. Hann gat því ekki staðfest að frétt Bild væri sönn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×