Handbolti

Ætlar ekki að standa í vegi fyrir Erlingi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Erlingur er hér til vinstri.
Erlingur er hér til vinstri.
Konny Wilczynski, framkvæmdarstjóri austurríska félagsins Westwien, mun ekki standa í vegi fyrir Erlingi Richardssyni ef hann vill gerast næsti þjálfari þýska liðsins Füchse Berlin.

Eins og kom fram á Vísi í gær liggur fyrir að Erlingur taki við Füchse Berlin en hann mun hafa samþykkt þriggja ára samning við félagið. Það hefur þó ekki verið staðfest af félaginu sjálfu.

„Það ríkir engin togstreita á milli félagana. Bob [Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin] lét mig vita að hann vildi ræða við Erling. Og ég mun ekki leggja neina steina í götu Erlings ef hann vill fara í þýsku úrvalsdeildina.“

„Ég veit sjálfur hversu gott það er að starfa þar,“ bætti Wilczynski við en hann var sjálfur leikmaður hjá Füchse Berlin í nokkur ár. „Ég styð enn félagið. Ef ég get hjálpað því þá geri ég það með gleði.“

Fram kemur í þýska blaðinu Bild að Erlingur sé ekki sá eini sem kemur til greina í starfið. Markus Baur og Ola Lindgren eigi einnig í viðræðum við félagið að sögn blaðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×