Handbolti

Öxlin verður aldrei eins og ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
hannes jón Hér í leik með Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni.mynd/gerhard könig
hannes jón Hér í leik með Eisenach í þýsku úrvalsdeildinni.mynd/gerhard könig
„Ég hitaði upp og var til taks. En svo sat ég uppi í stúku ásamt tveimur öðrum leikmönnum,“ sagði Hannes Jón Jónsson, leikmaður þýska úrvalsdeildarfélagsins Eisenach, við Fréttablaðið í gær. Hann hefur verið frá keppni síðan í desember en þá gekkst hann undir tvær aðgerðir á öxl eftir að hafa fengið alvarlega sýkingu.

„Ég er svo sem enn á kafi í endurhæfingunni og verð sjálfsagt áfram út þetta tímabil, enda á ég enn langt í land. En þetta hefur gengið mjög vel miðað við allt. Maður var ekkert allt of vongóður í desember og janúar og þá óttaðist maður jafnvel að ferlinum væri lokið,“ bætir hann við.

Sýkingin í öxlinni blossaði upp þegar ákveðið var að setja Hannes í sprautumeðferð vegna skemmdar í svokölluðum AC-lið, sem tengir viðbeinið við öxlina.

„Þegar sýkingin var svo hreinsuð út með aðgerð var um leið gert við skemmdina með því að fjarlægja hluta af viðbeininu. Það veldur því að öxlin verður óstöðugri og það er það sem ég hef verið að berjast við,“ segir Hannes og bætir við að gömul meiðsli hafi ekki hjálpað til við að byggja upp öxlina á ný.

„Ég fór til dæmis í stóra aðgerð á öxlinni árið 1998 og hún minnir á sig núna þegar stöðugleikinn í öxlinni hefur breyst. Þetta er bara orðið gamalt og slitið,“ segir hinn 34 ára gamli Hannes Jón í léttum dúr.

„Það er alveg ljóst að þetta verður aldrei aftur eins og nýtt en ætti að verða nógu gott svo maður geti spilað handbolta áfram,“ bætir hann við. Hannes segist einnig hafa fengið þau skilaboð frá lækni sínum í vikunni að afar ólíklegt sé að sýkingin muni taka sig upp að nýju.

Missti ekki úr leik í ellefu ár

Hannes hefur gengið í gegnum ýmislegt á síðustu tveimur árum en haustið 2012 voru þrjú illkynja æxli fjarlægð úr þvagblöðru hans. Hann sneri aftur aðeins nokkrum mánuðum síðar og var í lok tímabilsins valinn leikmaður ársins í þýsku B-deildinni.

„Þetta hefur verið hundleiðinlegt en svona lagað getur komið upp. Ég var lengi mjög heppinn með meiðsli og missti til að mynda ekki úr leik í ellefu ár. Það kom því ekkert annað til greina en að takast á við þessi mál af fullum krafti. Þetta hefur verið mikill og góður skóli fyrir mig þrátt fyrir allt,“ segir hann.

Ætlar að snúa sér að þjálfun

Samningur Hannesar við Eisenach rennur út í lok tímabilsins og óljóst hvað tekur við. „Það kemur til alveg til greina að vera áfram hjá Eisenach en ég er aðallega að hugsa um að koma mér í almennilegt stand til að auka líkurnar á því að ég komist á samning, hvar sem það verður.“

Hannes hefur einnig áhuga á að gerast þjálfari og ætlar að afla sér menntunar á því sviði. „Ég hef ákveðið að snúa mér í þá átt ef mér býðst ekkert spennandi sem leikmaður,“ segir Hannes sem áætlar að hefja nám á A-stigi í Þýskalandi í sumar.

„Það hafa einhverjar fyrirspurnir borist umboðsmanni mínum en ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki heitasti bitinn á markaðnum,“ segir hann í léttum dúr. „Enda er aðalmarkmið mitt nú að ná mér heilum og þá hlýtur eitthvað gott að gerast.“

Hann segist jafnvel klár í að spila með Eisenach strax í næsta leik. „Maður verður auðvitað að þekkja sín takmörk og fara ekki of geyst en þetta er allt í áttina hjá mér.“


Tengdar fréttir

Hannes Jón fyllti okkur eldmóði

"Það var gríðarlega erfitt fyrir mig sem þjálfara að fylgjast með Hannesi ganga í gegnum allt þetta," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson um nýliðið tímabil hjá Hannesi Jóni Jónssyni sem greindist með krabbamein í haust.

Hannes Jón spilar ekki meira á árinu

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Eisenach, hefur staðfest að Hannes Jón Jónsson verði hvíldur fram yfir áramót vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×