Handbolti

Dagur: Ég myndi samt ekki leggjast flatur fyrir þeim

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
„Ég var í viðræðum við þýska sambandið áður en það réð Martin þannig að það er ekkert skrítið að nafnið mitt hafi komið upp,“ segir Dagur Sigurðsson við Fréttablaðið um þann orðróm að Degi verði á ný boðið starf sem landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta í sumar.

Það er vægast sagt heitt undir Martin Heuberger, þjálfara liðsins, sem mistókst að koma því á EM í Danmörku. Þjóðverjar voru frekar óheppnir í drættinum í umspilsleikina fyrir HM en þar mæta þeir Pólverjum sem þykja sigurstranglegri. Komist Þýskaland ekki á HM þykir næsta víst að Heuberger verði rekinn og hefur Dagur verið orðaður við liðið á ný.

„Ég myndi ekki slá það frá mér og myndi alveg setjast niður með þeim. Ég myndi samt ekki leggjast flatur fyrir þeim,“ segir Dagur sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Füchse Berlín.

Hann er hvergi banginn við þýska starfið þó þjálfarar fárra handboltaliða séu undir meiri pressu.

„Þetta virðist ekki vera skemmtilegasta starf í heimi en aftur á móti væri það mikil áskorun. Þýskaland er stór handboltaþjóð og myndi alveg kitla að reyna að hafa einhver áhrif,“ segir Dagur sem áður stýrði austurríska landsliðinu samhliða því að þjálfa liðið Bregenz. Það kemur ekki til greina að þjálfa Þýskaland og Berlínarrefina.

„Nei, ég myndi aldrei gera það samhliða því. Ég er búinn að prófa það og geri það ekki aftur,“ segir Dagur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×