Handbolti

Bætti sig bæði í handbolta og heimilisstörfunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir fagnar hér til hægri titlinum með Sävehof.
Birna Berg Haraldsdóttir fagnar hér til hægri titlinum með Sävehof. Mynd/Úr einkasafn
Landsliðskonan Birna Berg Haraldsdóttir varð meistari annað árið í röð um helgina þegar hún tók þátt í því að tryggja Sävehof-liðinu sænska meistaratitilinn á sínu fyrsta ári sem atvinnumaður.

„Það er búið að vera svo ótrúlega góð stemning i liðinu undanfarið þannig að það kom mér ekki á óvart að við tækjum þetta. Úrslitadagurinn er þvílíkt stór dagur hér í Svíþjóð og þetta er mögulega eitt af því skemmtilegasta ég hef gert,“ sagði Birna Berg.

„Þetta er ótrúlegt lið og ótrúlegir karakterar i þessu liði. Ég er hrikalega stolt af því að spila fyrir IK Sävehof,“ sagði Birna Berg en þetta var sjötta árið í röð sem Sävehof vinnur sænska titilinn. „Ég er búin að kynnast ótrúlegu sigurhugafari i þessum klúbb og ég sjálf hef breytt því hvernig ég hugsa,“ segir Birna Berg en hvernig gekk?

„Fyrsti veturinn gekk upp og niður. Það er alveg satt sem maður heyrir að atvinnumennska sé ekki bara dans af rósum. Þegar ég hugsa til baka þá er ég ágætlega sátt með mína frammistöðu en þetta hefur verið lærdómsríkur vetur. Ég hef þroskast mikið síðan ég flutti út og hef tekið framförum, bæði í handbolta sem og í heimilisstörfunum,“ segir Birna í léttum tón.

Birna Berg varð Íslandsmeistari með Fram í fyrra. „Þetta var allt öðruvísi því ég handabrotnaði í undanúrslitunum í fyrra og gat ekki verið með í úrslitaeinvíginu. Ég varð því að horfa á allt einvígið uppi í stúku en núna fékk ég að vera með og það er allt önnur tilfinning,“ segir Birna Berg. Hún segist hafa bætt sig á þessum fyrsta vetri í Svíþjóð.

„Ég hef bætt mig á þessu tímabili og þá helst sem varnarmaður. Ég hef líka breytt hugarfari mínu gagnvart varnarleik,“ segir Birna og viðurkennir fúslega að hafa ekki haft allt of gaman af því að standa í vörninni þegar hún spilaði á Íslandi. Birna Berg segist líka vera sterkari andlega eftir veturinn.

„Oft átti ég erfitt með að spila ef fyrsta skotið mitt klikkaði en núna hugsa ég ekki einu sinni um það ef ég klikka,“ segir Birna og næst á dagskrá er að hjálpa íslenska landsliðinu að komast á EM. „Ég ætla að gera allt mitt til að við komumst á EM,“ segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×