Körfubolti

Ingi Þór um Jón Arnór: Ára hans jákvæð og sterk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánson í leik með KR vorið 2009.
Jón Arnór Stefánson í leik með KR vorið 2009. Vísir/Vilhelm
Jón Arnór Stefánsson var valinn íþróttamaður ársins 2014 af Samtökum íþróttafréttamanna. Fréttablaðið fékk þrjá KR-þjálfara sem þekkja kappann vel til þess að segja sína skoðun á þessum frábæra leikmanni.

Ingi Þór Steinþórsson þjálfaði Jón Arnór þegar hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn vorið 2000 en Ingi Þór hefur verið annaðhvort þjálfari eða aðstoðarþjálfari á öllum tímabilum Jóns Arnórs í meistaraflokki KR.

„Ég er ótrúlega stoltur fyrir hönd svo margra sem koma að ferli Jóns Arnórs. Jón Arnór er magnaður persónuleiki sem kemur frá einstæðu fólki og er ára hans jákvæð og sterk," segir Ingi Þór.

„Jón Arnór hefur alla tíð verið vel liðinn af samherjum og einnig mótherjum þar sem hann hefur bæði kunnað að sigra og einnig að tapa," segir Ingi Þór.

„Jón Arnór er gríðarlega góður íþróttamaður og á þeim tíma sem hann byrjaði að mæta hjá Benedikt var hann á fullu í knattspyrnu. Honum fannst karfan skemmtilegri og sem betur fer þá náðum við í KR að gera verkefni liðanna hans það spennandi að hann einbeitti sér eingöngu að körfunni," segir Ingi Þór.

„Jón Arnór og hans lið tóku þátt í keppni við eldri og var Jón alltaf áhugasamari við þá leiki, meiri keppni. Við fórum utan til að setja meiri áskorun á liðið og ekki síst Jón Arnór en það sem gerir hann að svona frábærum íþróttamanni er að hann átti alltaf nóg inni til að bæta við sig þegar að áskoranirnar voru meiri. Jón Arnór er fjörugur og skemmtileg persóna sem allir sækjast eftir að verða samferða," sagði Ingi Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×