Körfubolti

Haukur Helgi og félagar töpuðu á flautukörfu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi Karlsson.
Haukur Helgi Karlsson. Vísir/Andri Marinó
Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í LF Basket töpuðu á grátlegan hátt fyrir KFUM Nässjö, 64-63, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Heimamenn voru einu stigi yfir þegar KFUM-liðið fór í lokasóknina, en það brenndi af sniðskoti þegar tvær sekúndur voru eftir. Því miður fyrir LF Basket náði leikmaður gestanna að pota boltanum ofan í með frákastinu og tryggði þeim sigurinn um leið og flautan gall.

Haukur Helgi skoraði 10 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar fyrir LF Basket sem var búið að vinna fjóra leiki í röð fyrir tapið í kvöld.

Fimm leikja sigurgöngu Drekanna í Sundsvall lauk einnig í kvöld þegar liðið tapaði á útivelli gegn ecoÖrebro, 101-91, en þegar sömu lið mættust fyrir þremur dögum síðan vann Sundsvall auðveldan sigur, 102-87.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði grimmt að vanda eða 18 stig og Hlynur Bæringsson nældi sér í enn eina tvennuna með 13 stigum og 12 fráköstum. Ægir Þór Steinarsson skoraði tvö stig en Ragnar Nathanaelsson kom ekkert við sögu í leiknum.

Eini Íslendingurinn í sigurliði í kvöld var Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Hans menn í Solna Vikings bundu enda á fimma leikja taphrinu sína með sigri á Jämtland Basket, 93-87, á heimavelli í kvöld.

Sigurður Gunnar skoraði 15 stig og tók sex fráköst fyrir Solna sem er með 20 stigí sjöunda sæti deildarinnar. Sundsvall er með 34 stig og LF Basket 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×