Handbolti

Meistaradeild Evrópu stækkuð og breytt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Flensburg er ríkjandi Evrópumeistari í handbolta.
Flensburg er ríkjandi Evrópumeistari í handbolta. Vísir/Getty
Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur kynnt nýtt fyrirkomulag á Meistaradeild Evrópu í handbolta frá og með næstu leiktíð.

Ákveðið hefur verið að stækka keppnina og verða 28 lið í aðalkeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð í stað 24. Keppnisfyrirkomulaginu verður einnig breytt.

Þá verða greiddar hærri upphæðir sem taka þátt í keppninni en um 30 prósenta aukningu er að ræða. Öll lið sem taka þátt í riðlakeppninni fá ákveðna upphæð og svo meira eftir því sem þau komast lengra í keppninni. Nákvæmt fyrirkomulag á þessu liggur þó ekki fyrir en verður kynnt á fundi framkvæmdastjórnar EHF í lok næsta mánaðar.

Hins vegar er ljóst að félögin sem komast í undanúrslit keppninnar og taka þátt í „Final Four“ úrslitahelginni deila með sér einni milljón evra - um 150 milljónir króna. Þar af fær sigurvegarinn helming.

Eins og sjá má hér er nýja keppnisfyrirkomulagið á Meistaradeildinni nokkuð óhefðbundið. Sterkustu sextán liðin er skipt í tvo riðla, A og B, en hinum í C og D-riðla. Sex lið af átta úr A- og B-riðlum komast áfram í 16-liða úrslitin, nema sigurvegarar riðlanna sem fara beint í fjórðungsúrslitin.

Tvö efstu liðin í C- og D-riðlunum komast áfram í sérstaka útsláttarkeppni og aðeins tvö þeirra komast svo áfram í 16-liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×