Körfubolti

Drekarnir byrjuðu á sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson átti góðan leik í kvöld.
Hlynur Bæringsson átti góðan leik í kvöld. Vísir/Getty
Sundsvall Dragons vann mikilvægan sigur á LF Basket í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, 77-70.

Peter Öqvist, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, er þjálfari LF Bakset en var áður hjá Sundsvall Dragons og gerði liðið að Svíþjóðarmeisturum. Hann varð að sætta sig við tap á heimavelli í kvöld.

Jakob Örn Sigurðarson var næststigahæstur í liði Drekanna með fimmtán stig en hann tók einnig fimm fráköst. Hlynur Bæringsson náði flottri tvennu - þrettán stigum og tíu fráköstum en hann gaf einnig fjórar stoðsendingar.

Ægir Steinarsson skoraði fjögur stig í leiknum en Ragnar Nathanaelsson kom ekki við sögu.

Haukur Helgi Pálsson hefur verið lykilmaður í liði LF Basket en náði sér ekki á strik í kvöld. Hann skoraði tvö stig og tók þrjú fráköst á þeim átján mínútum sem hann spilaði.

Þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×