Handbolti

Strákarnir hans Arons töpuðu toppslagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari KIF Kolding.
Aron Kristjánsson, þjálfari KIF Kolding. Vísir/Stefán
KIF Kolding frá Kaupmannahöfn, sem spilar undir stjórn Arons Kristjánssonar, tapaði í kvöld á móti Team Tvis Holstebro í riðlakeppni dönsku úrslitakeppninnar en bæði liðin voru búin að vinna tvo fyrstu leiki sína.

Team Tvis Holstebro vann KIF Kolding 32-23 á heimavelli sínum eftir að hafa verið 17-12 yfir í hálfleik.

Það er erfitt að spila í Gråkjær Arena í Holstebro og strákarnir hans Arons Kristjánssonar fengu að reyna það í kvöld.

KIF Kolding var búið að vinna sex marka sigur á Århus Håndbold og ellefu marka sigur á Skjern í tveimur fyrstu leikjum sínum.

KIF Kolding tók tvö stig með sér fyrir að vinna deildarkeppnina og er því enn með eins stigs forskot á lið Team Tvis Holstebro þegar riðillinn er hálfnaður.

Allan Dangaard skoraði 9 mörk fyrir Team Tvis Holstebro í kvöld og þurfti aðeins þrettán skot til þess að skora þessi mörk.

Bo Spellerberg var markahæstur hjá KIF Kolding með fimm mörk en hann átti einnig sex stoðsendingar á félaga sína.

KIF Kolding spilar næst við Skjern Håndbold á útivelli. Liðið spilar síðan á heimavelli í tveimur síðustu leikjunum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×