Körfubolti

Íslensku stelpunum fjölgar enn í New York

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Henningsdóttir (númer fimm) í leik með Haukum.
Lovísa Henningsdóttir (númer fimm) í leik með Haukum. Vísir/Daníel
Lovísa Henningsdóttir, nítján ára miðherji úr Haukum, hefur ákveðið að taka skólastyrk frá Marist-háskólanum í New York fylki en hún segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Lovísa var úti í Bandaríkjunum í vetur þar sem hún lék körfubolta með skólaliði Rock High School en veturinn áður fór hún með Haukaliðinu alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

Lovísa hefur gert munnlegt samkomulag við Marist-skólann en mun skrifa undir í vikulokin. „Eftir margar áhugaverðar heimsóknir í háskóla ákvað ég að gera samning við Marist College háskólann í New York fylki. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir því að hefja nám í þessum skóla í sumar," skrifar Lovísa á fésbókarsíðu sína.

Lið Marist-skólans endaði í 2. sæti í MAAC-deildinni á síðasta tímabili en liðið vann þá 15 af 20 leikjum sínum innan deildarinnar. Marist-háskólinn hefur aðsetur í Poughkeepsie en þangað er um eins og hálfs tíma akstur norður af New York borg.

Íslensku körfuboltastelpurnar streyma til New York þessa dagana. Margrét Rósa Hálfdanardóttir spilaði með Canisius-háskólanum í Buffalo í New York fylki í vetur og næsta vetur mun Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir einnig spila með skólanum. Tímabilið 2015-2016 verða því þrjár íslenskar körfuboltastelpur að spila með 1. deildarskóla í New York fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×